Titill greinarinnar er auðvitað bjánalegur en sýnir engu að síður hvað umræðan um Strætó bs. og almenningssamgöngur er á miklum villigötum. En komum að því síðar. Viðskiptablaðið gerði bágborinni skuldastöðu Strætó bs. skil í tölublaði sínu frá 15. september.

Rekstur félagsins er ósjálfbær og veltufjárhlutfall og eiginfjárhlutfall langt frá því að teljast viðunandi. Í samantektinni var leitað álits Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í Hafnarfirði sem sagði að sveitarfélögin gætu ekki aukið fjárframlögin til Strætó og að grípa þyrfti til skamm- og langtíma aðgerða til að bæta reksturinn. Eins þyrfti að taka upp gamla tillögu um aukna útvistun á rekstri almenningsvagna, sem Reykjavíkurborg stóð gegn á sínum tíma. Þá velti hún fyrir sér hversu mikið fjármagn stjórnvöld treystu sér til að setja inn í reksturinn og taldi að rekstur almenningssamgangna, Strætó og Borgarlínu, þarfnaðist „gaumgæfilegrar skoðunar til framtíðar“. Til að fyllstu sanngirni sé gætt eru þessar vangaveltur Rósu réttmætar en það er mér til efs að við séum sammála um hvers konar skoðunar þær þarfnist. Ég tel að rekstur Strætó bs. horfi ólíkt við okkur Rósu að mörgu ef ekki öllu leyti.

Sveitarfélögin hafa ýmsum skyldum að gegna og margt af því sem þau gera er bundið í lög og reglugerðir. Bókasöfn, grunnskólar, meðhöndlun úrgangs, fráveita og félagsþjónusta eru nokkur dæmi um lögbundin verkefni sveitarfélaga. Þótt útvista mætti öllum þessum verkefnum til einkaaðila eru þau engu að síður á ábyrgð sveitarfélagsins og það er sannfæring mín og minnar hreyfingar að öll grunnþjónusta eigi best heima í höndum sveitarfélaga. Um þetta erum við Rósa ósammála en hún telur að leysa megi rekstrarvanda Strætó bs. með meiri útvistun til að rétta af reksturinn; að vandamálið sé reksturinn.

Þetta viðhorf til Strætó bs. er rót vandans. Sveitarstjórnarmenn  hafa verið of uppteknir af því að skila almenningssamgöngum réttu megin við núllið frekar en að líta á þær sem samfélagslega og nauðsynlega grunnþjónustu sem þarf að reka og viðhalda. Leikskólar, grunnskólar og félagsþjónusta skila aldrei beinum fjárhagslegum hagnaði og Strætó bs. þarf þess ekki heldur. Almenningssamgöngur eru grundvöllur þess að nútímasamfélag gangi liðlega. Þær minnka álag á umferðarkerfið, draga úr útblæstri, styðja ferðafrelsi fólks og tengja íbúa við störf, þjónustu og afþreyingu. Ef við höfum efni á að setja hundruð milljóna í að niðurgreiða innanlandsflug, milljarða í að malbika vegi og viðhalda þeim og tugi milljarða í jarðgöng, hlýtur að vera hægt að halda úti góðum og tíðum almenningssamgöngum.

Samfélagslegur og umhverfislegur ábati góðra almenningssamgangna er langtum mikilvægari en rekstrarhagnaður félagsins.

Hvað þarf að breytast?

Fyrir það fyrsta þurfa viðhorf stjórnmálamanna til almenningssamgangna að gerbreytast, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum. Við þurfum að taka af skarið og skilgreina almenningssamgöngur sem grunnþjónustu í landslögum og marka stefnu um þær á landsvísu. Við þurfum að skilgreina ásættanlega þjónustu og tíðni milli byggðarlaga og innan höfuðborgarsvæðisins og tryggja fjármögnun til framtíðar. Markmiðið ætti ávallt að vera hágæða þjónusta og tíðni.

Nú höfum við sett okkur háleit markmið um að auka hlutdeild almenningssamgangna, bæði til að stemma stigu við loftslagsbreytingum en líka til að draga úr notkun einkabílsins, auka ferðafrelsi fólks og bæta heilsu þess en fé þarf að fylgja svo við náum markmiðum okkar. Sveitarfélögin og ríkið eiga að tryggja hágæða og tíðar almenningssamgöngur með fjárframlögum og gera Strætó bs. að stöndugu, umhverfisvænu og traustu félagi í almannaþágu sem hægt er að reiða sig á en er ekki sífellt skorið niður þegar pusar á bátinn eða notendur látnir borga með því að hækka fargjöldin.

Vandræði Strætó bs. eru ekki rekstrarleg. Vandræði Strætó eru tómlæti, stefnuleysi og skilningsleysi stjórnmálamanna sem hafa ekki enn áttað sig á því að almenningssamgöngur eru grunnþjónusta sem þarf að festa í sessi. Samfélagslegur og umhverfislegur ábati góðra almenningssamgangna er langtum mikilvægari en rekstrarhagnaður félagsins. Ef reksturinn er í mínus ættu viðbrögð ráðamanna frekar að vera þau að auka tíðni ferða en ekki vinna að því að losa sig við reksturinn með úthýsingu. Viðhorfin til Strætó bs. og rekstrar þess þurfa að breytast. Til þess þarf pólitíska ákvörðun og skilgreina Strætó bs. sem nauðsynlega grunnþjónustu sem er niðurgreidd af ríki og sveitarfélögum og rekin í þágu umhverfis og almannaheilla. Svona eins og ríkið hefur hingað til gert í þeim málaflokkum sem við köllum grunnþjónustu í dag.   

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 29. september.