Magnús Geir Þórðarson, nýráðinn útvarpsstjóri, hefur sagt öllum framkvæmdastjórum Ríkisútvarpsins upp og boðar víðtækar skipulagsbreytingar, sem munu haldast í hendur við verulega breytta forgangsröð þar á bænum. Enn er of snemmt að leggja dóm á þær, en á hinn bóginn ber að fagna því að hinn nýi útvarpsstjóri gangi svo hreint til verks.

Varla er þó nokkrum vafa undirorpið að það eiga eftir að verða verulegar breytingar á rekstri Ríkisútvarpsins og það mun ekki síst eiga við um fréttastofuna, einfaldlega vegna þess hversu stór hún er innan Ríkisútvarpsins, hvort heldur litið er til útgjalda eða mannafla. Það mun ekki gerast hljóðlaust, svo fjölmiðlarýnir er þegar búinn að birgja sig upp af örbylgjupoppi.

* * *

Um síðastliðna helgi var flutt viðtal Mikaels Torfasonar, leikskálds og yfirritstjóra 365 miðla, við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í sjónvarpsþættinum Mín skoðun á Stöð 2. Skoðanir eru skiptar um viðtalið, eins og gengur, en ýmsum gagnrýnendum ráðherrans þótti Mikael ekki þjarma nægilega vel að Hönnu Birnu. Ein af skýringunum á því gæti verið sú, að viðtalið var tekið upp nokkrum dögum fyrir útsendingu, en Mikael átti brýnt erindi vestur í Washington dc um helgina þar sem uppfærsla Þjóðleikhússins á leikritinu Harmsögu eftir hann var sýnd í Kennedy Center.

Á hinn bóginn fyrtust margir við það, þegar þeir urðu áskynja um að viðtalið hefði verið tekið upp, enda var þátturinn kynntur með þeirri lýsingu að hann yrði „í beinni“, eins og vant er og Mikael – teatrískur sem hann er í þessum þáttum – nefndi í innganginum að viðmælandinn væri að gera sig tilbúinn, svona rétt eins og þetta væri í beinni og allt gæti gerst. Nú hefur það ótvíræð áhrif á viðtöl, hvort þau eru í beinni útsendingu eða ekki. Það hefur líka áhrif á skemmtanagildið: beinar útsendingar eru ávallt kynntar sérstaklega og það þykir nokkur veigur í þeim, bæði fyrir útsendara og áhorfendur. Það er hins vegar einstaklega hæpið, fráleitt raunar, að í þessu hafi falist einhver sérstök undirmál eða samsæri með ráðherranum, eins og þessir ofvirkustu í athugasemdunum vildu halda fram.

Hitt blasir við, að Stöð 2 fór þarna mjög kæruleysislega með stimpilinn „í beinni“ og Mikael gerði ekkert sem gæti truflað þann misskilning áhorfandans að þátturinn væri í beinni útsendingu. Sennilegast af markaðsástæðum fremur en nokkru öðru. Ef þetta væri hreinn og klár skemmtiþáttur myndu fáir fetta fingur út í slíkar sjónhverfingar, það er fæst sem sýnist á sviði. En Mín skoðun á að heita fréttatengdur þáttur, umræðuþáttur um þjóðmál. Þar má ekki taka sér skáldaleyfi, færa í stílinn eða villa um fyrir áhorfendum. Ekki frekar en í fréttum.

Samhengi viðtalsins við ráðherrann reyndist annað en haldið var að áhorfendum og það er fals, sama af hvaða ástæðum eða ásetningi það var nú gert. Hins vegar má alveg spyrja hvort það eigi að koma mönnum fyllilega á óvart. Leikrænir tilburðir Mikaels þegar hann les áhorfendum pistilinn með leikmunum og öllu ættu auðvitað að vera mönnum vísbending að skilningur hans á eðli fréttatengdra þátta kunni að vera annar en tíðkast hefur. En þá ætti hann frekar að fara alla leið og gera Mína skoðun að fréttatengdum gamanþætti á borð við The Daily Show með Jon Stewart, sem margir kannast við.

* * *

Það er ekki nauðsynlegt fyrir fjölmiðla að segja sannleikann með ákveðnum greini (hvað þá stórasannleika!), heldur eiga þeir að segja fréttirnar, eins og menn vita þær sannastar og réttastar á hverjum tíma. Jafnvel þó menn geri sér grein fyrir því að fréttin sé ófullkomin, að hið sanna sé enn óupplýst og ekki öll kurl til grafar komin.

En fjölmiðlar mega ekki skreyta, fylla í eyður eða greina frá því sem þeim þykir líklegast, sviðssetja, hanna atburðarás eða breyta tímaröð. Það er allt hagræðing á sannleikanum: lygi.

* * *

Í því samhengi má vel horfa til fleiri atriða en fréttanna einna. Það var t.d. ekki óþekkt hér á árum áður, að sumir fjölmiðlar gerðu meira úr eigin útbreiðslu en efni stóðu til. Hvað segir það um trúverðugleika þeirra miðla? Eða þegar fréttamat ljósvakamiðla á íþróttaviðburðum virðist af fullkominni tilviljun fara saman við það hvaða útsendingarréttar þeir hafa aflað sér. Er það traustvekjandi?

Eða þegar fjölmiðlar auglýsa verðlaun fyrir fréttaskot, fréttir vikunnar og fréttir mánaðarins, sem enginn virðist þó nokkru sinni hreppa. Eykur það traust manna á miðlinum?

Pistill Andrésar birtist í Viðskiptablaðinu 20. mars 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .