Það er skýrt merki um stöðu ríkissjóðs að fjármálaráðherrar þurfa nú að hlaupa á milli ríkisfyrirtækja og biðja þá að auka arðgreiðslur ofan í botnlausu hítina sem þeir tóku þátt í að skapa.
Þannig lásu hrafnarnir um að Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra hefði óskað eftir að að Landsvirkjun hækkaði arðgreiðslur sínar í ár til ríkisins úr tuttugu milljörðum í þrjátíu. Áður hafði forveri hans, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, hitt Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra í sömu erindagjörðum. Lilja gat ekki orðið við því enda var hún í þann mund að ganga á eigið fé bankans með kaupunum á TM.
Hrafnarnir ætla annars ekki að rifja upp orð fyrrverandi forsætisráðherra um nauðsyn þess að fyrirtæki gæti hófs í arðgreiðslum og ekkert að minnast á hvaða reglur gilda um skuggastjórnendur. En þeir benda þó á að þetta sé farið að minna á drykkjumanninn sem vaknar þunnur og fer að leita að samankrumpuðum seðlum í jakkanum sem hann var síðast í á djamminu.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðið. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 8. maí 2024.