Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og einn mikilvægasti maður íslensks samtíma, var fljótur að bregðast við stjórnarslitunum á sunnudag.
Á meðan aðrir stjórnmálaleiðtogar brugðust við með því að sækja í baklandið til skrafs og ráðagerða hlóð Levívélin í strangheiðarlegan Facebook-status af gamla skólanum:
„Nú eru allar hendur á dekk eftir að enn ein stjórnin springur. Enn einn „stöðugleikinn“ farinn fyrir lítið. Öll sem vilja breytingar í stjórnmálum – meira lýðræði, eftirlit með valdi, vernd borgararéttinda og ábyrgð í stjórnmálin – hafi samband við næsta Pírata sem þið þekkið.“
Tý þykir þetta ansi sérstakt herkall, sérstaklega í ljósi þess að það var aðeins fyrir tveimur vikum sem þingmenn Pírata breyttu kosningaúrslitum í kjöri til framkvæmdastjórnar flokksins og njósnuðu um flokksmenn sína. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður réttlætti þetta með því að segja að það væri alsiða hjá Pírötum að breyta niðurstöðum kosninga eftir á. Enn og aftur vísa þeir á bug allri ábyrgð ef þeir fremja brotin.
En Björn Leví var ekki hættur. Hann skrifaði á Facebook:
„Kyrrstaðan sem hefur verið í stjórnmálum frá því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá er ólýðræðisleg. Eina leiðin til þess að tryggja alvöru aðgerðir er öflugur Pírataflokkur. Að mínu mati munu allir aðrir flokkar málamiðla sig frá því að breyta neinu sem máli skiptir. “
Þarna er Björn að vísa til þeirrar staðreyndar að Píratar hafa gert það að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn að stjórnarskráin sem Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu og Ómar Ragnarsson sömdu á sínum tíma verði innleidd. Þetta gerðu þeir fyrir síðustu kosningar og kosningarnar 2016 og 2017.
Það hvarflaði reyndar ekki að neinum að bjóða Pírötum til stjórnarmyndunarviðræðna í alvöru eftir þær kosningar, en það er önnur saga. Staðan gæti verið önnur eftir næstu kosningar.
Ef Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, stendur uppi með pálmann í höndunum gæti hún þurft á stuðningi Pírata að halda við að mynda nýja ríkisstjórn. Hún hefur nú þegar sagt að hún leggi enga áherslu á innleiðingu uppkasts þeirra Péturs og Ómars að nýrri stjórnarskrá enda bíða mikilvægari mál úrlausnar.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. október.