Íslenskir stjórnmálamenn virðast einungis hafa eitt svar við öllum vanda: Auka ríkisútgjöld! Týr hefur fylgst með umræðu í fjölmiðlum um þá staðreynd að fæðingartíðni íslenskra kvenna sé nú sambærileg við það sem þekkist í öðrum þróuðum hagkerfum. Hvernig vilja stjórnmálamenn bregðast við þessu?
Jú, auka ríkisútgjöld.
Snemma á þessu ári fór að bera á minni umsvifum í ferðaþjónustunni. Nú virðist samdrátturinn ætla að verða það mikill að Íslandsbanki spáir einungis 0,4% hagvexti í ár. Arion lækkaði einnig hagvaxtarspá sína á dögunum vegna sömu ástæðna.
Týr telur augljóst að ferðamönnum fari fækkandi og þeir dragi úr útgjöldum meðan þeir dvelja hér á landi vegna þess að raungengi krónunnar er í hæstu hæðum. Samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar hefur hreinlega versnað.
Íslenskir stjórnmálamenn sjá þetta ekki með sömu augum. Þennan vanda er einnig hægt að leysa með að auka ríkisútgjöld. Þannig hefur Lilja Alfreðsdóttir boðað að ríkið muni eyða mörg hundruð milljónum króna í að auglýsa Ísland sem áfangastað í erlendum miðlum.
Það mun ekki breyta neinu um efnahagslegar ástæður þess að ferðamönnum fækkar hér á landi og þeir eyða ekki jafn miklu og áður.
Þessi áform Lilju verða svo enn furðulegri þegar haft er í huga að skýrar vísbendingar eru komnar fram um að Evrópumenn hafi dregið markvisst úr ferðalögum í ár. Á uppgjörsfundi Ryanair í vikunni sagði Michael O‘Leary forstjóri félagsins að eftirspurn eftir flugi fari minnkandi samhliða samdrætti á einkaneyslu og að félagið kæmist ekki hjá því að lækka fargjöld enn frekar meðan að þannig árar.
Týr veltir fyrir sér hvort að stjórnmálamenn eins og Lilja telji að hressileg auglýsingaherferð í umsjón Íslandsstofu muni virkilega breyta einhverju í þessum efnum. Sennilega gera þeir það ekki en það breytir ekki því að hundruðum milljóna af fé skattgreiðenda verður eigi að síður varið í þessa auglýsingaherferð.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 24. júlí 2024.