Þrátt fyrir að það fari ekki hátt, þá er alltaf eitthvert lífsmark á gráa markaðnum - eða verðbréfamarkaði venjulega fólksins eins og sumir kalla hann - með hlutabréf á Íslandi. Þar ganga hlutabréf óskráðra fyrirtækja kaupum og sölum. Vissulega er ekki flot á bréfum margra slíkra félaga.

Margir gerðu góð kaup í bréfum Kerecis á sínum tíma og enn er fólk úti í bæ sem vonar að úr rætist með fjárfestingar þess í Controlant. Nú virðist almenningur horfa til Eggerts Þórs Kristóferssonar og stórfelldrar uppbyggingar First Water á landeldi í Ölfusi.

Verðbréfatips er uppáhalds Facebook-hópur hrafnanna, að Tenetips undanskildum. Þar má nú sjá um 20 þúsund hluti í First Water til sölu á 105 krónur á hlut, og samkvæmt því er markaðsverð félagsins þá um 33 milljarðar. Þetta er sama gengi og í hluthafaaukningunni fyrr á þessu ári. Ekki stendur á áhuganum, en ríflega 100 manns höfðu lýst yfir áhuga í athugasemdum við færsluna. Meðlimir Verðbréfatips virðast greina stöðuna með sama hætti og Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, sem hefur mikla trú á verkefninu. Enda er félagið stærsti hluthafinn í First Water.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.