Þegar litið er um öxl að áliðnu ári er nærtækt að staldra fyrst við hæstaréttardóm sem kveðinn var upp í nóvember og varðar grundvallaratriði. Hæstiréttur staðfesti með dómi sínum að lögmætar væru tilteknar breytingar á áunnum réttindum sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í samræmi við nýjar forsendur um lífslíkur þjóðarinnar.

Þar með var snúið við héraðsdómi sem áfrýjað var til Hæstaréttar. Skiptar skoðanir voru um útfærslu og áhrif nýs reiknigrunns um lífslíkur fyrir tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða. Óþægilegt er að búa við slíka réttaróvissu en ánægjuefni að henni hafi nú verið eytt. Farsælast er þegar leikreglur eru skýrar.

Grænbókin

Ríkisstjórnin sem mynduð var að loknum alþingiskosningum 2021 lýsti yfir vilja til að lífeyriskerfi landsmanna yrði yfirfarið og metnar þær áskoranir sem að því kynnu að steðja. Unnið hefur verið að grænbók um lífeyriskerfið og þess var að vænta að því verki lyki fljótlega. Þingrof, kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar setja óhjákvæmilega strik í þann reikning.

Mikilvægt er að ný ríkisstjórn, hverjir svo sem hana skipa, taki þátt í því að ljúka sem fyrst við grænbókina. Ég geng úr frá því að stjórnvöld á hverjum tíma sýni í orði og verki ríka ábyrgð gagnvart lífeyrissjóðakerfinu og stuðli að farsælli þróun þessa fjöreggs þjóðarinnar sem hvað eftir annað fær uppáskrifað að sé í fremstu röð á veraldarvísu.

Þar vísa ég til þess að fjórða árið í röð fékk íslenska lífeyriskerfið ágætiseinkunnina A í alþjóðlegum samanburði og deilir þeirri fyrirmyndarstöðu með Hollendingum, Dönum og Ísraelsmönnum.

Kerfin tvö tali saman

Margt er undir einmitt núna. Ég nefni til að mynda verulegar breytingar sem samþykktar voru á almannatryggingakerfinu og koma til framkvæmda 1. september 2025. Það vantar hins vegar að gaumgæfa hvort og þá hvernig lífeyrissjóðakerfið aðlagist þeim breytingum.

Við þekkjum vel umræðuna um víxlverkun kerfanna tveggja með tilheyrandi skerðingaráhrifum í kerfi almannatrygginga. Allir sem hlut eiga að máli verða bókstaflega að strengja þess áramótaheit að koma því til leiðar að almannatryggingakerfið annars vegar og lífeyrissjóðakerfið hins vegar fari nú að „tala saman“ svo viðunandi sé.

Þetta kallar á faglegt og gott samtal ríkisvaldsins annars vegar og heildarsamtaka atvinnulífsins hins vegar. Landssamtök lífeyrissjóða munu ekki liggja á liði sínu í verkefninu enda er innan vébanda þeirra að finna fjölda sérfræðinga sem sjálfgefið er að koma eigi að málum og miðla af þekkingu sinni og reynslu.

Sjónarhorn Seðlabankans

Áhugaverð er sú staðreynd að lífeyrissjóðakerfið bar sjaldan á góma í nýafstaðinni kosningabaráttu. Þjóðmálaumræðan yfirleitt er líka jafnan á lágstemmdari og málefnalegri nótum hvað lífeyrissjóði varðar en óþægilega algengt var áður fyrr. Það er ánægjulegt. Í nóvember birti Seðlabankinn skýrslu um umsvif og starfsemi lífeyrissjóða og bauð í kjölfarið til líflegra umræðna í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Seðlabankafólk lagði skýrsluna sína á borð sem „umræðuplagg“, kveikju að skoðanaskiptum miklu frekar en niðurstöðu. Það er vel og sannaðist þá þegar að margar vangaveltur og ábendingar Seðlabankans urðu tilefni rökræðna. Hér er hvorki staður né stund til að fjalla um einstök efnisatriði en vert að nefna að upphaf lífeyrissjóðakerfisins er rakið til kjarasamnings á almennum vinnumarkaði 1969.

Þróun kerfisins og breytingar verða því að vera sameiginlegt verkefni allra sem að því standa. Framsögumenn lífeyrissjóða í Safnahúsinu undirstrikuðu þetta og forseti Alþýðusambands Íslands sá ástæðu til þess að segja hátt og skýrt að lífeyrissjóðakerfið væri á ábyrgð launafólks og atvinnurekenda, þar með talið fyrirkomulag stjórnarkjörs í sjóðunum.

Reglur um stjórnarkjör væru þannig á vettvangi almennra kjarasamninga og ættu þar heima. Löggjöfin um lífeyrissjóði er sannarlega séríslensk og það eigum við að nýta betur. Tileinka okkur það sem hentar en hafna öðru.

Regluverk ESB er íþyngjandi, flókið og verður smám saman enn flóknara frekar en hitt. Við eigum að stuðla að því að einfalda regluverkið án þess að slá af kröfum um starfsemina og um tilheyrandi eftirlit.

Áskilið er að við sýnum forverum okkar, sem lögðu grunninn að því kerfi sem við búum við, þann sóma að halda áfram að gera gott og öflugt lífeyrissjóðakerfi enn betra. Ábyrgðin er þeirra sem fara með völd og varast skal að færa byrðar á komandi kynslóðir. Ég óska landsmönnum gleðilegs nýs árs með ósk um farsæld og frið.