Ég hef aldrei verið hrifinn af þrepaskiptu skattkerfi enda sannfærður um að slíkt kerfi sé ranglátt og vinni gegn þeim markmiðum sem margir stjórnmálamenn segjast vilja ná; að stuðla að tekjujöfnun og tryggja ríkinu tekjur – jafnvel hámarkstekjur.

Tekjuskattur með þremur skattþrepum, tekjutengingum og tilheyrandi jaðarsköttum íþyngir ekki síst þeim sem lægri launin hafa. Gallar kerfisins koma vel í ljós þegar gerðar eru breytingar á skattleysismörkum – persónuafslætti. Eftir því sem laun eru lægri því meira vægi hefur persónuafslátturinn. Hækkun persónuafsláttar gengur upp allan tekjustigann. Þegar launafólki tekst að afla hærri launa og bæta sinn hag er skattkerfið óvægið í refsingu sinni; launafólk lendir í hærra skattþrepi og tekjutengdum skerðingum. Háir jaðarskattar eru hlutfallslega mest íþyngjandi fyrir þá sem hafa lægstu launin.

Í janúar 2018 setti ég fram tillögu um flatan tekjuskatt – eina skattprósentu óháð tekjum – en um leið yrði tekinn upp nýr og töluvert hærri persónuafsláttur sem lækki eftir því sem tekjur hækka. Í slíku kerfi getur verið réttlætanlegt að ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út – tekjuskattur þeirra sem lakast standa verður neikvæður.

Flatur tekjuskattur með stiglækkandi persónuafslætti þjónar betur markmiði sínu en margþrepa tekjuskattur með öllum sínum tekjutengingum og jaðarsköttum. Kerfið verður einfaldara og skiljanlegra. Staða láglaunastétta og millitekjuhópa verður sterkari. Í stað þess að vera barið niður með háum jaðarsköttum með tilheyrandi tekjutengingum og hærra skattþrepi er ýtt undir launafólk. Refsingar og letjandi hvatar kerfisins eru sniðnir að mestu af.

Skattbyrðin verður misþung eftir tekjum – hækkar eftir því sem tekjur hækka. Launamaður með laun undir skattleysismörkum greiðir ekkert og fær hugsanlega greiddan út ónýttan persónuafslátt séu tekjur undir ákveðnu viðmiði. Raun skattprósentan (skattbyrðin í hlutfalli af launum) verður því hærri sem tekjur eru hærri enda lækkar persónuafslátturinn með hækkandi tekjum. Þegar þeim launum er náð, þar sem persónuafslátturinn er að núll, verður skattprósentan flöt – sú sama.

Hér skal fullyrt að tekjuskattskerfi sem byggir á flatri skattprósentu og stiglækkandi persónuafslætti styrkir stöðu lang flestra, fyrst og síðast þeirra sem eru með lægstu launin og meðaltekjur.

Kjarasamningar og skattar

Aukin bjartsýni virðist ríkja meðal aðila vinnumarkaðarins um að hægt sé að ná skynsamlegum kjarasamningum til nokkurra ára. Og það verður, samkvæmt venju, gerð krafa um að ríkisvaldið leggi sitt af mörkum. Ég óttast að fremur verði horft til þess að auka bóta- og millifærslur, en tryggja að launafólk haldi meiru eftir í launaumslaginu þegar búið er að greiða skatta og gjöld. Lækkun tekjuskatts og hækkun barnabóta hugnast mér hins vegar ekki illa.

Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja hvers vegna forysta verkalýðshreyfingarinnar tekur ekki upp baráttu fyrir uppstokkun tekjuskattskerfisins, þannig að það verði gert heilbrigðara og réttlátara. Sterk rök eru fyrir þeirri fullyrðingu að þrepaskiptur tekjuskattur með tekjutengingum og tilheyrandi jaðarsköttum auki launamuninn í þjóðfélaginu fremur en að jafna kjörin.

Á síðustu árum hefur tekist að lækka tekjuskatt einstaklinga töluvert. Skattbyrði hefur lækkað ekki síst þeirra sem hafa lægstu launin. En þrátt fyrir léttari skattbyrði hafa gallar skattkerfisins ekki verið sniðnir af.

Þótt ég hafi fundið ágætan stuðning frá einstaka forystumönnum úr röðum launafólks við hugmyndinni um flatan tekjuskatt, er borin von til þess að í komandi þjóðarsáttarsamningum (sem vonandi takast) verði lagt upp með uppstokkun á skattkerfinu. En verkalýðshreyfingin ætti að geta tekið höndum saman með samtökum atvinnurekenda að krefja stjórnvöld um að mörkuð verði langtímastefna í ríkisfjármálum, sem taki mið af því að aukinn hluti hagvaxtar verði eftir í vösum launafólks. Slíkt yrði mesta kjarabótin samhliða lækkun verðbólgu og vaxta.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.