Hálfsársuppgjör bankanna voru ekki ýkja merkileg, ef frá er talinn Landsbankinn. Til marks um það var arðsemi Arion banka og Íslandsbanka undir arðsemiskröfu stjórna bankans á fyrri helming árs.

Hálfsársuppgjör bankanna voru ekki ýkja merkileg, ef frá er talinn Landsbankinn. Til marks um það var arðsemi Arion banka og Íslandsbanka undir arðsemiskröfu stjórna bankans á fyrri helming árs.

Það kom Tý nokkuð á óvart að sjá ríkismiðilinn fjalla um hálfsárs uppgjör bankanna. Undrunin varð enn meiri þegar í ljós kom að það fréttnæmasta sem fréttamaður RÚV kom auga á í árshlutauppgjörum Arion banka og Íslandsbanka var sú staðreynd að þau séu einungis birt í fullri lengd á ensku.

***

Að sjálfsögðu var haft samband við helsta verndara íslenskrar tungu, Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, til að fá hennar sjónarmið á þessu mikilvæga máli. Hún hafði að sjálfsögðu rætt við bankastjóra Arion banka og Íslandsbanka vegna þessa og sagði ekki hægt að gefa afslátt af notkun íslenskunnar. Þá sagði hún að farið yrði yfir lög um ársreikningaskil er hún var spurð að því hvort notkun bankanna á enskri tungu gæfi tilefni til að lögin yrðu endurskoðuð.

Eins og fram kom í fréttinni birta umræddir bankar ársreikninga sína á íslensku, lögum samkvæmt. Það að árshlutauppgjör þeirra séu einungis birt á ensku getur varla talist stórmál, enda birtist sá reikningur sem mestu máli skiptir, sem sýnir afkomu og rekstur bankanna yfir allt árið, á íslensku. Benda má ráðherranum á að fjöldi hluthafa Arion banka og Íslandsbanka eru af erlendu bergi brotnir og mikilvægt að þeir geti glöggvað sig á árshlutauppgjörum bankanna. Landsbankinn er aftur á móti í eigu ríkissjóðs og því minni ástæða fyrir bankann til að birta árshlutauppgjör á ensku. Þá efast Týr um að margir landsmenn, sem ekki hafa vald á ensku, lesi árshlutauppgjör bankanna spjaldanna á milli.

Loks þykir Tý furðulegt að Lilja sé að skipta sér af því hvernig Arion banki, sem er skráður á markað og er ekki að neinu leyti í eigu ríkisins, hagar birtingu sinna árshlutauppgjöra. Ríkissjóður er enn stærsti eigandi Íslandsbanka og á Landsbankann. Það er því eðlilegra að ráðherrann sé að skipta sér af rekstri þeirra, þó að Tý þyki reyndar óþarfi að menningar- og viðskiptaráðherra sé að skipta sér af árshlutauppgjörum bankanna.

***

Fyrirtækin í landinu, bankarnir þar á meðal, hljóta að teljast færir til að meta það af sjálfsdáðum hvort þau birti árshlutauppgjör sín á ensku, íslensku, svahílí eða hvaða öðru tungumáli sem þeim dettur í hug. Kröftum viðskiptaráðherra væri betur varið í að finna leiðir til að minnka álögur á bankana, viðskiptavinum þeirra til heilla, í stað þess að skipta sér af því á hvaða tungumáli þeir birta árshlutauppgjör sín.

Það er ekki ókeypis að þýða árshlutauppgjör yfir á íslensku en Týr reiknar með að Lilja setji á fót sérstakt styrkjakerfi til að hjálpa bönkunum að standa straum af þeim kostnaði.

Týr er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.