Jólabókaflóðið er yfirvofandi. Hrafnarnir lásu viðtal við Gunni Líf Gunnarsdóttur, starfsmann Samkaupa og millistjórnanda ársins árið 2022 samkvæmt Stjórnvísi, þar sem hún segir verslanir félagsins munu gera sig gildandi á jólabókamarkaðnum og lægsta bókaverðið verði í Nettó.

Hrafnarnir eru hrifnir af samkeppni og fagna því þessu. Þeir þakka jafnframt fyrir að Lilja Alfreðsdóttir fráfarandi menningarráðherra hafi ekki tekist ætlunarverk sitt um að miðstýra bókaverði hér á landi. Í þingsályktunartillögu Lilju um bókmenntastefnu næstu ára sem lögð var fyrir þingið er meðal annars lagt til að kannað verði hvort koma eigi „fastverðsfyrirkomulagi fyrir bóksölu hér á landi, þ.e. að ákveðnar tegundir bóka skuli alls staðar kosta það sama innan ákveðinna tímamarka. Einnig hvort setja eigi skorður við sölu og/eða miðlun bóka í gegnum áskriftarleiðir streymisveita,“ eins og það er orðað í tillögunni.

Sem betur verður ekkert úr þessum áformum og landsmenn munu áfram geta notið frjálsræðis í verðlagningu á bókum og öðrum vörum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. nóvember 2024.