Gervigreind er að umbreyta heiminum á hraða sem fáir sáu fyrir og stórveldi heimsins keppast um að ná forskoti í kapphlaupinu. Tækifæri Íslands í þessari þróun liggja ólíkt stóru löndunum í smæð okkar, sem getur orðið okkar helsti styrkleiki. Veldisvöxtur gervigreindar hefur nefnilega skapað nýjar leikreglur þar sem lítil og sveigjanleg teymi geta náð árangri sem áður var óhugsandi. Þannig getur Ísland, sem er með takmarkaðan mannauð en mikla sérfræðiþekkingu, skapað sér tækifæri til framtíðar.

Á síðustu misserum hefur gervigreind umbylt atvinnugreinum um heim allan. Fyrirtæki sem tileinka sér þessa tækni ná forskoti en þau sem bregðast seint við dragast aftur úr. Evrópusambandið hefur brugðist við með löggjöf um gervigreind (AI Act), en spurningin er hvort slíkt regluverk sé hvetjandi eða letjandi fyrir nýsköpun?

ESB regluverk og tækifæri Íslands

Draghiskýrslan, sem unnin var fyrir ESB, undirstrikar áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir í samkeppni um nýsköpun. Á meðan Bandaríkin og Kína keppast um að ná forskoti í gervigreind, hefur Evrópusambandið beint sjónum sínum að regluverki og takmörkunum. AI Act reglugerðin mun leggja byrðar á fyrirtæki sem vilja þróa gervigreindarlausnir, sem getur orðið samkeppnishamlandi.

Fyrirtæki með aðsetur í Evrópu þurfa að verða meistarar í hindrunarhlaupi til að ná árangri í gervigreind á meðan að fyrirtæki utan Evrópu geta þróað og innleitt tækni á hraða sem viðheldur forskoti þeirra. Hér liggur tækifæri Íslands. Sem EES-ríki höfum við sveigjanleika við innleiðingu reglugerða, sem getur gefið okkur samkeppnisforskot. Við getum skapað umhverfi sem styður við nýsköpun í gervigreind en tryggir ábyrga þróun.

Lítil teymi, stórir sigrar

Eitt af einkennum núverandi gervigreindarbylgju er að litlir hópar eru að ná árangri. Það hefur verið sjaldgæft að lítil teymi tæknifólks nái á skömmum tíma að byggja upp fyrirtæki sem velta milljónum eða jafnvel hundruðum milljóna dollara á ársgrundvelli. Þetta eru fyrirtæki eins og Midjourney, sem hefur þróað gervigreindarlíkön sem búa til myndefni. Tíu manna teymi þeirra hefur á einungis tveimur árum byggt upp fyrirtæki sem veltir $200M á ársgrundvelli. Annað dæmi er Bolt.new sem gerir notendum kleift að forrita ýmsar lausnir með aðstoð gervigreindar  með aðeins 15 manna teymi. Bolt.new hefur þegar velt um $20M á einungis tveimur mánuðum. Svona mætti lengi telja.

Þetta er þróun sem hefur áhrif á forsendur nýsköpunar. Gervigreindin getur margfaldað afköst og gert litlum teymum kleift að ná áður óþekktum árangri. Hér liggja tækifæri Íslands.

Veldisvöxtur og þróun

Árangur þessara litlu teyma er afleiðing af veldisvexti gervigreindar. Með hverju ári hefur gervigreind víðtækari áhrif á hagkerfið og fyrirtæki sem greina tækifærin snemma vaxa hratt. Undanfarin ár hefur kostnaður við notkun gervigreindar lækkað tífalt á ári, eða þúsundfalt á þremur árum, sem gerir tæknina aðgengilegri og opnar nýja notkunarmöguleika í nánast öllum atvinnugreinum.

Nú þegar sjáum við íslenskar nýsköpunarlausnir sem nýta gervigreind til að greina gögn og taka ákvarðanir á hátt sem áður var bara á færi sérfræðinga. Þó umræðan beinist oft að tæknifyrirtækjum, liggja tækifæri í umbreytingu rótgróinna atvinnugreina eins og byggingariðnaðar og framleiðslu, þar sem gervigreind getur aukið framleiðni, lækkað kostnað og dregið úr umhverfisáhrifum.

Þessi tækifæri eru ekki fjarri íslenskum veruleika. Mynstra, fyrirtæki sem ég stofnaði, er dæmi um hvernig lítið íslenskt teymi getur nýtt gervigreind til að skapa verðmæti. Við höfum sérhæft okkur í að brúa bilið milli hefðbundinna vinnubragða og nýrrar tækni. Með fáum starfsmönnum erum við að þróa lausnir sem hjálpa íslenskum fyrirtækjum að nýta gervigreind á árangursríkan hátt, með áherslu á raunveruleg vandamál og mælanlegan ávinning.

Framtíðarsýn fyrir Ísland

Til að Ísland geti nýtt sér tækifærin sem gervigreind og stafræn umbreyting bjóða upp á þarf samstillt átak atvinnulífs, stjórnvalda og menntakerfis

Samtök iðnaðarins hafa lagt fram tillögur sem gætu eflt samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði. Tryggja þarf umgjörð og hvata til nýsköpunar með Tækniþróunarsjóði og hvötum til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar þurfa að vera fyrirsjáanlegir til lengri tíma og mikilvægt er að laða að alþjóðlega sérfræðinga með skilvirkari stjórnsýslu og ívilnunum. Þessar aðgerðir myndu styðja við lítil teymi sem eru að nýta sér gervigreind til að skapa verðmæti.

Ef við nýtum þann sveigjanleika sem við höfum, getum við skapað umhverfi þar sem lítil og framsækin teymi geta vaxið hratt og orðið að gerendum á heimsvísu.

Að grípa tækifærið

Umræða um gervigreind og tækifæri Íslands er þegar hafin. Á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins verður þessi umræða tekin lengra með þátttöku lykilaðila úr atvinnulífi og stjórnsýslu.

Við stöndum á tímamótum þar sem val okkar er skýrt þ.e. að vera þátttakendur þróuninni eða að dragast aftur úr. Ísland hefur tækifæri til að nýta sveigjanleika sinn og skapa umhverfi þar sem lítil teymi geta náð árangri á heimsvísu. Eins og Draghiskýrslan bendir á þarf Evrópa að bregðast hratt við og Ísland getur verið í fararbroddi þeirrar þróunar.

Tækifærin eru til staðar – spurningin er hvort við nýtum þau?

Höfundur er stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins og stofnandi Mynstru sem sérhæfir sig í hagnýtingu gervigreindar.

Pistillinn birtist fyrst í sérblaði Viðskiptablaðsins um Iðnþing.