Týr sér ljóðræna fegurð í þeirri staðreynd að Ragnar Þór Ingólfsson og Dagur B. Eggertsson sitja báðir í hópi Ingu Sæland, félags- og húsnæðisráðherra, um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Fegurðin felst ekki síst í því að þegar Ragnar var formaður VR og leiddi starf Blævar, sem er óhagnaðardrifið leigufélag í eigu verkalýðsfélagsins, gagnrýndi hann Dag, sem þá var borgarstjóri, harðlega fyrir lóðaskort í borginni – skort sem stóð uppbyggingu hins óhagnaðardrifna félags fyrir þrifum.
En nú hafa þingmennirnir Ragnar og Dagar snúið bökum saman og ætla í sameiningu að leysa bráðavanda á fasteignamarkaðnum. Þjóðarátakið sem Inga Sæland hefur boðað í þessum efnum kallast á við áform nýs borgarmeirihluta um stórfellda uppbyggingu húsnæðis í Úlfarsárdal.
Fram hefur komið að öll þessi uppbygging á að eiga sér stað í samstarfi við ríkið og verkalýðsfélögin. Þetta þýðir með öðrum orðum að leigufélögin Blær og Bjarg, sem eru í eigu ASÍ og BSRB, munu fá stór hlutverk.
Blær og Bjarg eru óhagnaðardrifin leigufélög. Óhagnaðardrifið er annað hugtak yfir niðurgreiðslu á einhvers konar starfsemi. Þegar Ragnar Þór var formaður VR kvartaði hann mikið yfir því að félagsleg leigufélög gætu ekki keppt við einkaaðila um lóðir til uppbyggingar. Með öðrum orðum var hann að kvarta yfir því að leigufélag VR fengi ekki lóðir afhentar undir markaðsverði.
Miðað við þetta hvílir hin boðaða stórfellda uppbygging í Úlfarsárdal á því að leigufélögum verkalýðshreyfingarinnar verði afhentar lóðir í hverfinu undir markaðsverði. Erfitt getur verið að réttlæta slíka niðurgreiðslu útsvarsgreiðenda í Reykjavík á rekstri þessara leigufélaga. Ekki síst í ljósi grafalvarlegrar fjárhagsstöðu borgarinnar.
Fái leigufélögin ekki þessar lóðir afhentar á spottprís þá eru félagsmenn í verkalýðshreyfingunni að niðurgreiða reksturinn. Varla ríkir mikil sátt um slíkt.
Í ljósi þessa hefur Týr miklar efasemdir um bráðaaðgerðahóp Ingu Sælands og uppbyggingaráform hins nýja meirihluta í borginni.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum VIðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 12. mars 2025.