Týr fjallaði í síðustu viku um samfélagsmiðlaleik Samgöngustofu um áramótin. Þeir sem splæstu þumli á Samgöngustofu á samfélagsmiðlum gátu unnið sér KFC-fötu.
Eins og fram kemur á vef stofnunarinnar er hlutverk Samgöngustofu að „auka lífsgæði með öruggum samgöngum.“ Það þarf því varla að koma á óvart að Samgöngustofa er enn og aftur búin að ýta úr vör nýjum samfélagsmiðlaleik. Samfélagsmiðlaleikir eru jú órjúfandi þáttur í að „auka lífsgæði með öruggum samgöngum.“
Þessi leikur er í samstarfi við 66° Norður og er hann auglýstur í ljósvakamiðlum, á flettiskiltum og á samfélagsmiðlum. Engu hefur greinilega verið til sparað. Leikurinn er jafnframt með sitt eigið vefsvæði. Af vefsvæðinu að dæma fer meira púður í að auglýsa vörur 66° Norður á síðunni en að benda vegfarendum á að ganga með endurskinsmerki.
Leikurinn gengur annars út á að taka mynd af sér með endurskinsmerki og birta á samfélagsmiðlum með myllumerki ásamt sagnorðinu „sjáumst“. Týr sló þessu inn á Google og sá að sex hafa enn sem komið er tekið þátt í leiknum. En hann sá fullt af myndum af fólki að drekka bjór á barnum Loksins í Leifsstöð.
Þetta leiðir hugann að því hvort stofnanir eins og Samgöngustofa hafi hreinlega allt of mikið fé til að moða úr ef þær standa fyrir svona auglýsingaherferðum mörgum sinnum á ári. Hvernig er eftirfylgni og mati á árangri slíkra herferða háttað? Er það yfirhöfuð kannað? Vinnueftirlitið stóð fyrir mikilli auglýsingaherferð fyrr í vetur. Hvaða árangri skilaði hún? Að minnsta kosti hefur Týr ekki séð neinn stíga öryggisdansinn á þeim vinnustöðum sem hann hefur átt erindi á í vetur.
Vafalaust er hægt með skapandi hugsun að sýna fram á mikinn árangur slíkra auglýsingaherferða. Í því samhengi er nærtækt að rifja upp mikla auglýsingaherferð sem Mjólkursamsalan stóð fyrir á sínum tíma. Að henni lokinni var send fréttatilkynning til fjölmiðla þar sem glæsilegum árangri herferðarinnar var lýst. Til marks um það var vísað til könnunar sem staðfesti að meirihluti landsmanna tengdi orðið „Muuu“ við mjólkurneyslu.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 10. janúar 2024.