Í tengslum við ársfund Samtaka atvinnulífsins á dögunum var kynnt áhugaverð könnun sem hefur fengið merkilega litla umfjöllun í fjölmiðlum.

Í tengslum við ársfund Samtaka atvinnulífsins á dögunum var kynnt áhugaverð könnun sem hefur fengið merkilega litla umfjöllun í fjölmiðlum.

Áhugaleysið er eftirtektarvert í ljósi þeirrar staðreyndar að kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum eru að renna út og fjölmiðlar hlaupa alla jafna til handa og fóta þegar leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar tjá sig á samfélagsmiðlum um komandi átök í Karphúsinu.

Enda eru þeir sjaldnast sparir á stóru orðin. Þannig skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í nýjustu útgáfu blaðs verkalýðssamtakanna:

„Niðurstaða komandi kjarasamninga verður mælikvarði á það hvort við sem þjóð stóðum í lappirnar fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir eða hvort við verðum kynslóðin sem tapaði áttum og laut í lægra haldi í stríðinu gegn sjálftöku og botnlausri spillingu. Ef við töpum þessu stríði munu afleiðingarnar verða alvarlegri en við höfum áður upplifað. Þess vegna er uppgjöf ekki valkostur og við þurfum að búa okkur undir áróður og hörku sem mörg okkar höfum ekki upplifað áður. Við þurfum að standa með okkur sjálfum og framtíðinni. Við þurfum að standa með forystufólki verkalýðshreyfingarinnar og sýna styrk okkar með órjúfanlegri samheldni og samstöðu. Við þurfum að hafna áróðri meginstraumsmiðla og vera óhrædd, sýna kjark og kaupa ekki lygina um að þetta sé okkur að kenna, lygina um að breytingar séu hættulegar, lygina um að þjófræðið sé okkur
fyrir bestu, lygina um að stjórnmálin leysi vandann.

Það er komið að skuldadögum, það er komið að uppgjöri. Uppgjöri þjóðar gegn óréttlæti, misskiptingu, græðgi og spillingu.“

Vafalaust er ekki hægt að dæma miðaldra fólk sem var aðeins sæmilega duglegt að mæta á KFUM fundi í æsku sem ályktar sem svo að þessi skrif séu innblásin af Opinberunarbók Jóhannesar.

En er það svo að að landsmenn líkt og Ragnar telji næstu kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum skera endanlega úr um hvort allt heimsins óréttlæti verði upprætt. Svarið er einfaldlega nei.

***

Samkvæmt ofangreindri könnun Samtaka atvinnulífsins virðast landsmenn hafa hóflegar væntingar til næstu kjarasamninga. Og í raun og veru virðast launþegar og atvinnurekendur vera sammála um það að það sem skipti sköpum varðandi næstu kjarasamninga er að menn komi sér saman um hóflegar launahækkanir sem eru í takt við efnahagslegar staðreyndir til vinna megi gegn þrálátri verðbólgu og vaxtastigi sem er handan sársaukamarka þorra Íslendinga.

Niðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi:

Meirihluti almennings telur lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana hjá sínum vinnuveitenda. Aftur á móti telur yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja SA, eða yfir 80%, lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana.“

Og enn fremur:

Á meðal atvinnulífs og almennings er mikil samstaða um hvað eigi að leggja áherslu á í komandi kjarasamningum. Yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja SA og almennings nefndi samninga sem stuðli að lækkun vaxta og verðbólgu og samninga sem varðveiti kaupmátt og tryggi störf. Um það bil helmingur beggja hópa nefndi svo sérstaka hækkun lægstu launa umfram almennar launabreytingar sem áhersluatriði í komandi kjarasamningum.“

Og:

Þegar fólk er beðið um að tilgreina nánar hversu mikið svigrúm það telji vera til launahækkana hjá sínum vinnuveitanda árið 2024 segir nærri helmingur almennings svigrúmið vera innan við 4%. Þegar svarendur eru beðnir um að tilgreina nánar hversu mikið svigrúm það telji vera til launahækkana árið 2024 segja 73% aðildarfyrirtækja SA svigrúmið vera innan við 4%, þar af segja 23% svigrúmið vera á bilinu 0-0,9% og 21% segir það vera á bilinu 2-2,9%.“

Könnunin leiðir sem sagt í ljós að meirihluti aðspurðra, hvort sem um ræðir atvinnurekendur eða launþega, telur efnahagslegar forsendur fyrir launahækkanir vera takmarkaðar. Þó svo að það komi fram í könnuninni að aðspurðir telji að svigrúmið til launahækkana sé meira í geirum sem þeir starfa ekki hjá skiptir það litlu máli í þessu samhengi. Að minnsta ekki í hugum þeirra sem kannast við skrif Daniels Kahneman og Amos Tversky.

Það væri því áhugavert ef fjölmiðlar spyrðu verkalýðsleiðtoga á borð við Ragnar Þór og Vilhjálm Birgisson hjá Starfsgreinasambandinu um hvað þeir segðu um þessar niðurstöður. Vafalaust vísar sá fyrrnefndi til einhverra greininga VR á gróðaverðbólgunni sem aldrei hafa fengist birtar og sá síðarnefndi er væntanlega upptekinn við munnhöggvast við nafnlausan endurskoðanda sem vogaði sér að hrekja af hluta af þeim þvættingi sem er haldið fram í tengslum við krappari kjör á fasteignamarkaði.

***

Varðandi það síðarnefnda. Um liðna helgi fór skjáskot af greiðsluseðli fasteignaláns í dreifingu á Facebook við vægast sagt dræmar undirtektir téðs Vilhjálms og fylgihnatta hans í fjölmiðlastétt.

Ónafngreindur endurskoðandi vogaði sér að stíga inn í þá umræðu og benda á þá staðreynd að skuldsettir fasteignaeigendur hafa alls ekki borið skarðan hlut frá borði undanfarin ár. Þeir hafa verið að borga neikvæða raunvexti af lánum sínum á sama tíma og launavísitalan hefur hækkað meira en fasteignavísitan.

Það liggur við að þessi maður hafi verið grýttur niður fyrir að benda á efnahagslegar staðreyndir málsins. Það vekur jafn framt athygli að þekktur fjölmiðlamaður sem stjórnar vinsælum dægurmálaþátt skuli taka þátt í þessari aðför án þess að hafa nokkur haldbær rök gegn því sem var haldið fram.

***

Vissulega verður ekki neitað þeirri staðreynd að greiðslubyrði lánsins sem gekk manna á millum samfélagsmiðlum hafði hækkað verulega. Enda hafa vextir hækkað mikið. Til þess er leikurinn gerður.

Verkalýðsrekendur gera mikið úr meintri vá að einhverskonar snjóhengja hvíli yfir heimilum þessa lands vegna þessara vaxtahækkana. Og fjölmiðlar eru gjarnir á að fjalla um þennan þátt málsins án þess að kafa nánar ofan í kjölinn.

En hverjar eru staðreyndir málsins? Heimilin standa í heild traustum fótum þó svo að á móti blási. Í fyrri fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans á þessu ári kemur fram að tæplega 75% heimila greiða minna en 200 þúsund krónur á mánuði vegna fasteignalána. Aðeins 14% greiða meira en 250 þúsund krónur. Sambærileg hlutföll eru 68% og 17% ef aðeins er horft til þeirra lántaka sem tóku nýtt lán frá janúar 2020.

Þá sýna tölur Hagstofunnar að eiginfjárstaða heimila hefur styrkst verulega á undanförnum árum og hefur aldrei verið sterkari en við upphaf ársins. Þessi þróun tekur til allra tekjutíunda sem verður að teljast sérstakt fagnaðarefni. Sterkari eiginfjárstaða skýrist að stærstum hluta af hækkun fasteignaverðs sem var ekki drifin af óhóflegri skuldsetningu. Þá eru vanskil heimila við lánardrottna í sögulegu lágmarki.