Niðurstöður PISA-skýrslu á versnandi lesskilningi og stærðfræðilegum og vísindalegum skilningi íslenskra barna hafa vakið mikið umtal undanfarna daga. Eins og aðrir hafa hrafnarnir áhyggjur af gangi mála og klóra sér í kollinum yfir hvað veldur þessari afturför.

Þeir hafa lesið útskýringar hinna ýmsu sérfræðinga í fjölmiðlum á hvað orsakar versnandi leikskilning barnanna. Eins og gengur og gerist þykir hröfnunum útskýringarnar sérfræðinganna misgáfulegar en skýring rithöfundarins Andra Snæs Magnasonar er í miklu uppáhaldi hjá þeim.

Í stuttu máli telur Andri Snær vandamálið felast í því að það fái ekki nógu margir barnabókahöfundar greidd listamannalaun á kostnað skattgreiðenda. Þessi skoðun rithöfundarins ætti ekki að koma neinum á óvart, enda nýtir hann hvert tilefni til að tala fyrir því að rithöfundum og öðru listafólki sé haldið uppi af skattgreiðendum.

Eftir því sem hrafnarnir best vita eru löndin sem koma betur út úr PISA-könnuninni en Ísland ekki öll sem eitt að greiða misgóðum rithöfundum og listafólki laun úr ríkissjóði. Það kann því að vera að lausn á vanda íslenska menntakerfisins liggi annars staðar en í að sólunda enn meiri fjármunum en þegar er gert í listamannalaun.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.