Baráttan við verðbólguna er ekki einkamál stjórnvalda eða Seðlabankans. Aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og launþegasamtök, bera líka mikla ábyrgð. Á það sérstaklega við þegar kjarasamningar eru lausir eins og gerðist þegar lífskjarasamningarnir runnu sitt skeið í í byrjun nóvember. Sem betur fer eru aðilar vinnumarkaðarins, flestir þeirra, meðvitaðir um þetta.

Þær fréttir sem borist hafa úr kjaraviðræðunum undanfarna daga eru fagnaðarefni. Samtök atvinnulífsins (SA) og Starfsgreinasamband Íslands  (SGS) riðu á vaðið í byrjun mánaðarins og undirrituðu samning sem gildir til loka janúar 2024. Samningurinn, sem er afturvirkur til 1. nóvember, kveður á um hækkun kauptaxta og 33 þúsund króna hækkun til þeirra sem taka ekki laun eftir kauptöxtum. Þá hækka bónusar og akkorð í fiskvinnslu um 8% og aðrir kjaratengdir liðir um 5%.

Í byrjun vikunnar undirrituðu svo SA, VR, LÍV og stéttarfélög iðn- og tæknifólks nýjan kjarasamning, sem einnig gildir loka janúar 2024. Hækka kauptaxtar og laun starfsmanna yfir töxtum hækka um 6,75% en þó að hámarki um 66 þúsund krónur. Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamninga hækka um 5%.

Samningarnir sem nú hafa verið undirritaður fara nú í atkvæðagreiðslu félagsmanna og mun niðurstaða liggja fyrir í næstu viku.

Hér fyrr var sagt Starfsgreinasambandið hefði samið við SA. Það er reyndar ekki alveg rétt því eitt aðildarfélag sambandsins stóð fyrir utan samningana en það er Efling – stéttarfélag. Það er ekkert að því að Efling standi fyrir utan telji félagið sig geta náð betri samningum. Það sem gerðist hins vegar í aðdraganda samninganna og eftir að þeir voru undirritaðir var hins vegar í besta falli sérkennilegt og versta falli skemmdarverk. Því miður kom sú atburðarás samt engum á óvart enda hefur Efling, undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, breyst í leikhús fáránleikans.

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness, sem tilheyrt hefur hinum herskáa armi verkalýðshreyfingarinnar, er nú orðin rödd skynseminnar. Sem formaður upplýsti hann forystufólk Eflingar um gang viðræðnanna við SA. Kvöldið fyrir undirritun greindi hann m.a. frá því samningarnir væri langt komnir. Daginn eftir, þegar samningarnir voru á viðkvæmu stigi, greindu fjölmiðlar frá innihaldi þeirra. Vilhjálmur er ekki í vafa um að Efling hafi lekið þessum viðkvæmu upplýsingum.

Hver var tilgangurinn annar en bara að eyðileggja það sem við vorum að gera.

„Markmiðið getur ekki hafa verið annað en að skemma þá vinnu sem við vorum að vinna að og afvegaleiða það sem verið var að semja um. Ég veit líka að haft var samband við allavega tvo formenn innan SGS og þeir beðnir um að skrifa ekki undir nýjan samning. Hver var tilgangurinn annar en bara að eyðileggja það sem við vorum að gera,“ sagði Vilhjálmur, sem einnig hefur sagt að þessi skammtímasamningur sé sá „langbesti“ sem hann hafi komið að á hans 20 ára ferli sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni. „Ég er sorgmæddur og dapur að sjá fólk sem ég taldi vera góða vini mína stinga mig í bakið,“ sagði Vilhjálmur ennfremur.

Þessi atburðarás er með miklum ólíkindum.

Eftir að samningarnir voru undirritaður bendir Efling á að þar sem verðbólgan sé há hefði þurft að semja um miklu meiri hækkanir til að bæta kaupmáttarskerðinguna. Þessi röksemdafærsla er fullkomlega órökrétt og sannar hið fornkveðna að ef það það er eitthvað sem við getum lært af sögunni þá er það að við lærum aldrei af sögunni. Sögulega hafa miklar launahækkanir ákveðins hóps leitt til höfrungahlaups upp allan stigann á vinnumarkaði. Kaupmáttur hefur aukist í skamman tíma en síðan hefur farið að síga á ógæfuhliðina. Viðskiptahallinn hefur fljótlega aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna.

Nú þegar Vilhjálmur og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, eru búnir að semja við SA er ljóst að Efling og Sólveig Anna eru algjörlega einangruð innan verkalýðshreyfingarinnar. Miðað við orðræðuna er ljóst að hún getur ekki samið á sömu nótum sem þýðir bara eitt, verkfall. Til þess þarf hún auðvitað samþykki félagsmanna sinna. Lokauppgjörið á hennar gamaldags marxísku verkalýðspólitík er því í nánd.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út 15. desember.