DV hefur fjallað um andstöðu og athugasemdir nokkurra lífeyrissjóða við áform Haga um að hefja netverslun með áfengi á dögunum með þeim leiðum sem hafa verið stundaðar hér á landi allar götur frá því að Sante fór að bjóða upp á slíka þjónustu fyrir þremur árum.

DV hefur fjallað um andstöðu og athugasemdir nokkurra lífeyrissjóða við áform Haga um að hefja netverslun með áfengi á dögunum með þeim leiðum sem hafa verið stundaðar hér á landi allar götur frá því að Sante fór að bjóða upp á slíka þjónustu fyrir þremur árum.

Síðan þá hafa fleiri stokkið á vagninn með að bjóða upp á netsölu á áfengi án aðkomu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem jafnframt býður upp á slíka þjónustu. Þá hefur Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra boðað frumvarp þar sem tekin verða af öll tvímæli um hvort slík verslun sé heimil samkvæmt lögum.

DV sagði frá því í síðustu viku að stjórn lífeyrissjóðsins Brúar hefði komið þeim skilaboðum áleiðis til Finns Oddssonar, forstjóra Haga, að hún harmi ákvörðunina um áfengissöluna. Þá segir vefmiðillinn frá því að þessari viku að Almenni lífeyrissjóðurinn og Lífsverk hafi leitað svara hjá Finni forstjóra við spurningum sem vöknuðu um hvort áfengissalan væri lögleg og í takt við almenn lýðheilsusjónarmið.

Það má velta fyrir sér hvort lífeyrissjóðirnir séu farnir að fjarlægast sitt raunverulega hlutverk – að ávaxta lífeyrissparnað sjóðsfélaga – þegar þeir eru farnir að setja fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í lýðheilsumarkmið í rekstrinum. En vafalaust er stjórnarmönnum í viðkomandi lífeyrissjóðum einhver vorkunn og vafalaust eru þessi afskipti í flestum tilfellum tilkomin vegna kvartana háværs minnihluta sjóðsfélaga.

Eigi að síður vekja þessi afskipti upp áhugaverðar spurningar sem vert er að spyrja. Heimkaup, sem eru í eigu Skeljar, hafa um árabil stundað netsölu með áfengi með góðum árangri. Beittu lífeyrissjóðir sér gegn því að Heimkaup hæfi slíka sölu á sínum tíma? Lífsverk er í hluthafahóp Skeljar. Hefur Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri sjóðsins, sent
Ásgeiri Reykfjörð, forstjóra Skeljar, sambærilegt bréf og DV segir hann hafa sent Finni og spurt út í samfélagslega ábyrgðina að baki þeirri ákvörðun að hefja áfengissölu?

Hvað með keðjuábyrgðina? Almenni lífeyrissjóðurinn, Brú og Lífsverk eru meðal stærstu hluthafa Ölgerðarinnar. Hægt er að kaupa áfengi frá Ölgerðinni í vefverslunum Hagkaupa og Hagkaupa. Munu þessir lífeyrissjóðir leita svara hjá Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra félagsins, um hvort það samræmist samfélagslegri ábyrgð að selja vörur til þessara fyrirtækja?

***

Alvarleg staða menntamála grunnskólanema hefur verið áberandi í fjölmiðlum frá því að Morgunblaðið hóf að fjalla um málið í sumar. Staðan kom til tals á menntaþingi sem haldið var á mánudag. Meðal þeirra sem ávörpuðu þingið var Ásmundur Daði Einarsson, mennta- og barnamálaráðherra. Margt áhugavert kom fram í máli ráðherrans sem fjölmiðlar mættu veita meiri gaum. Í endursögn á ræðu hans á vef Ríkisútvarpsins stóð:

„Ráðherra nefndi líka að kennarar skili sér síður í kennslu eftir nám eða hverfi oftar frá kennslu í aðra vinnu. Þeir hafa hins vegar fyllt stækkandi hóp deildarstjóra og millistjórnenda í skólum. Frá 2016 til 2023 hefur stöðugildum deildarstjóra í grunnskólum fjölgað um 95 prósent en á sama tíma fjölgaði nemendum um tæp 7 prósent.”

Þetta eru sláandi tölur svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Grunnskólakerfið hefur greinilega þanist út með einhvers konar millistjórnendavæðingu á sama tíma og molnað hefur undan meginmarkmiðinu: að kenna grunnskólabörnum grundvallaratriðin. Það er greinilega nóg af kennurum í skólanum að sinna öðrum störfum en kennslu. Þetta kallar á frekari umfjöllun fjölmiðla. Líklegt er að finna megi vísbendingar um sömu þróun í heilbrigðiskerfinu og öðrum kerfum sem ríkið sinnir að stærstum hluta. Fróðlegt verður að sjá hvort það sé einmitt ekki raunin.

***

Vinnumansal hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um bága stöðu erlendra farandverkamanna hér á landi. Þeir koma hér til lands í gegnum starfsmannaleigur og eins og fram kom í Kveiksþættinum virðast sumir þeirra bera skarðan hlut frá borði í samskiptum sínum við þau fyrirtæki. Að minnsta kosti þeir sem Kveiksmenn ræddu við. Þeir höfðu ekki fagra sögu að segja. Þeir búa við hrörlegan húsakost og lélegan aðbúnað og svo virðist sem einhverjar starfsmannaleigur hýrudragi þá á handahófskenndan hátt við hver mánaðamót. Kveikur fjallaði um sama mál fyrir sex árum og vekur athygli að ekki virðist mikið hafa breyst í þessum
efnum.

Umfjöllunin í þættinum var þörf en þó hefði verið til bóta ef leitað hefði verið til Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins og leitað svara við spurningunni hvers vegna þetta viðgengst. Skattgreiðendur eru látnir verja miklu fé til eftirlits með vinnumarkaðnum og fróðlegt væri að vita hvers vegna það er nýtt í auglýsingaherferð þar sem landsmönnum er kennt að stíga öryggisdansinn eins og í tilfelli síðarnefndu stofnunarinnar en ekki í að taka á svo alvarlegum brotum og koma þeim í viðunandi farveg?

Daginn eftir sýningu þáttarins leitaði fréttastofa RÚV viðbragða Finnbjörns Hermannssonar, forseta Alþýðusambands Íslands. Fram kom í máli hans að verkalýðsfélögin héldu úti sameiginlegum gagnagrunni með Vinnumálastofnun, lögreglunni og fleirum þar sem grunsemdum um vinnumansal er flaggað en ekkert sé gert við þær upplýsingar af yfirvöldum. Fróðlegt væri ef fjölmiðlamenn græfust fyrir um skýringar á því.

***

Sá sem þetta skrifar er ekki löglærður en gengur út frá því sem vísu að ástæðulaus hýrudráttur – eða launaþjófnaður eins og verkalýðshreyfingin kallar það – og þrælahald sé bannað samkvæmt íslenskum lögum. En það vekur athygli að lagabálkurinn minnist ekki einu orði á hugtakið vinnumansal.

Þegar leitað er að skilgreiningunni á vinnumansali vísar leitarvélin fyrst á Neyðarlínuna. Þar er að finna eftirfarandi skilgreiningu:

„Vinnumansal er þegar vinnuveitandi hagnast á vinnuframlagi annarrar manneskju.“

Þetta er ófullkomin skilgreining og nánast með öllu ótæk. Í fyrsta lagi felur hún í sér að fyrirtæki sem eru annaðhvort rekin með tapi eða á sléttu geti hreinlega ekki gerst sek um vinnumansal. Í öðru lagi virðist skilgreiningin hvíla á úreltum og kolröngum vinnugildiskenningum þeirra David Ricardo og Karls Marx.

Atvinnurekstur í markaðshagkerfi gengur beinlínis út á að vinnuveitandi hagnist á vinnuframlagi launþega rétt eins og hann hagnast á nýtingu annarra framleiðsluþátta á borð við land og fjármagn. Nokkuð almenn sátt hefur ríkt um að þetta fyrirkomulag sé það sem skili bæði launþegum og atvinnurekendum mestum ábata og segir það kannski meira en mörg orð um orðræðu vorra tíma að stuðst sé við slíka skilgreiningu án þess að nokkur geri neinar athugasemdir.

***

En fyrir áhugamenn um vinnugildiskenninguna og marxisma er rétt að benda á stórkostlega skemmtilegan þráð á Facebook-vegg Helga Hrafns Gunnarssonar um málið. Þar kennir ýmissa grasa svo ekki sé meira sagt.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 2. október 2024.