Hrafnarnir dást af þrautseigju og áræðni þeirra sem stjórna Bláa lóninu á þessum viðsjárverðu tímum.
Bláa lónið skilaði 2,7 milljörðum króna í hagnað í fyrra og jukust tekjur félagsins um meira en fjórðung milli ára þrátt fyrir áhrif Reykjaneselda á reksturinn. Enda er engan bilbug að finna á Grími Sæmundssyni forstjóra Bláa lónsins. Í ávarpi sínu í ársskýrslu félagsins spáir hann goslokum innan fárra vikna. „Það er trú mín að þessum náttúruhamförum, sem hófust í nóvember sl. og eru kenndar við Sundhnúkagígaröðina, muni ljúka á næstu vikum,“ segir Grímur í ávarpi sínu og starfsmenn félagsins horfi fram á veginn með drifkraft og bjartsýni að leiðarljósi.
Það hugarfar endurspeglast í ávarpi Úlfars Steindórssonar stjórnarformanns en hann segir að enn sé stefnt að skráningu félagsins í Kauphöllina og nú sé horft til vorsins 2025 í þeim efnum. Hrafnarnir eins og landsmenn allir vona að Grímur reynist sannspár með goslokin.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 17. apríl 2024.