Ég vinn við að gera málamiðlanir, það er mitt starf,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson oddviti Flokks fólksins í Reykjavík norður í Silfrinu á mánudag.
Vísaði Ragnar þar til starfa sinna sem formanns VR og mátti ráða af orðum hans að hann muni mæta til leiks á Alþingi með sama lausnamiðaða viðhorf og hann hefur sýnt í störfum sínum fyrir verkalýðshreyfinguna. Hröfnunum er í fersku minni hversu lausnamiðaður Ragnar Þór var við gerð síðustu kjarasamninga en hann undirritaði þá í fússi enda tilneyddur og lét vöfflurnar og myndavélarnar eiga sig að undirritun lokinni.
Í leiðara VR-blaðsins sem kom út í október lýsti svo Ragnar yfir að VR myndi framvegis standa eitt í kjarabaráttu sinni og að meginmarkmið félagsins væri að komast út úr stöðugleikasamningunum sem gilda til ársins 2028 og það verði gert með „góðu eða illu“.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. desember 2024.