Hvalavinurinn Henry Alexander Henrysson skrifaði grein á Vísi á dögunum þar sem hann bað landsmenn sérstaklega um að uppnefna ekki nýstofnaða Mannréttindastofnun Íslands sem Mannréttindastofnun VG.

Hrafnarnir telja sjálfsagt að verða við því í þetta sinn. Það sem hefur vakið sérstaka athygli við hin nýsamþykktu lög um rekstur stofnunarinnar eru hinar gríðarlegu miklu og víðtæku heimildir sem stofnunin fær til að krefjast upplýsinga um hvað sem starfsmönnum stofnunarinnar dettur í hug af mönnum, málleysingjum og fyrirtækjum til að tryggja stöðu mannréttinda hér á landi.

Í ljósi þessara  heimilda velta hrafnarnir fyrir sér hvort fyrsta verkefni hinnar nýju stofnunar verði að halda áfram með rannsókn Páls Gunnars Pálssonar forstjóra  Samkeppniseftirlitsins á fyrirhuguðum kaupum Samherja á helmings hlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh. Eins og fram hefur komið í fréttum hættu fyrirtækin við söluna fyrir nokkrum vikum en eins og fram kom í tilkynningu Síldarvinnslunnar um ákvörðunina fór SKE offari við skoðun málsins og að gagnaöflunin hafi snúist „um eitthvað annað og meira en umrædd viðskipti“.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill fyrst í blaðinu sem kom út 3. júlí 2024.