Gengi Íslandsbanka er í hæstu hæðum um þessar mundir og eru flestir sammála um að núverandi aðstæður á hlutabréfamarkaðnum komi til með að styðja við gengi bréfanna enn frekar.

Ljóst er að leynivinur Páls Magnússonar nagar nú sig í handarbökin yfir að hafa selt strax eftir síðasta útboð. Hrafnarnir heyra á mönnum á markaði að komnar séu upp kjöraðstæður til þess að ríkisstjórnin láti hendur standa fram úr ermum og hrindi af stað boðaðri sölu á hlut ríkisins í bankanum. Undirbúningsvinnunni lauk í tíð síðustu ríkisstjórnar og í raun ekki eftir neinu að bíða öðru en að skipstjórinn kalli „lagó“.

© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og aðrir leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafa sagt að ekki verði hróflað við fjárlögum ársins og þau gera ráð fyrir hagnaði af sölu á hlut ríkisins í bankanum. Margir bíða því spenntir eftir leiðsögn Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra í þessum efnum en lítið hefur heyrst til hans eftir að hann tók við embætti. Hrafnarnir greina töluverða óþreyju meðal þeirra sem starfa á markaðnum enda eru flestir þeirra skoðunar að hagsmunir ríkisins séu að ráðast í söluna fyrr frekar en síðar.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 8. janúar 2025.