Hrafnarnir hafa beðið óþreyjufullir eftir stjórnsýsluúttekt verðmatsmeistarans og ríkisendurskoðandans Guðmundar Björgvins Helgasonar á eftirliti MAST með velferð dýra.

Hrafnarnir hafa beðið óþreyjufullir eftir stjórnsýsluúttekt verðmatsmeistarans og ríkisendurskoðandans Guðmundar Björgvins Helgasonar á eftirliti MAST með velferð dýra.

Samkvæmt úttektinni er víða pottur brotinn í starfsemi stofnunarinnar. Meðal niðurstaða er að mikið vantraust ríki í garð MAST, bæði meðal fagfólks og almennings, og stofnunin þurfi að róa öllum árum að því að byggja upp traust. Stofnunin eigi jafnframt að taka gagnrýni á störf sín af meiri auðmýkt og „fagna því að fylgst sé með málaflokknum úr ýmsum áttum og hversu margir láta sig málefni dýravelferðar varða“.

En hver er töfralausn vandamála MAST að mati ríkisendurskoðanda? Jú, að stofnunin ráði sér upplýsingafulltrúa. Sem sagt, í stað þess að ráðast á rót vandans og bæta vinnubrögð og stjórnarhætti stofnunarinnar þarf hún einfaldlega að ráða sér upplýsingafulltrúa sem getur hjálpað til við að fegra stöðuna út á við.

Eins og sönnum ríkisforstjóra sæmir vildi Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST, varla nokkra ábyrgð taka á stöðu mála í viðtali við fjölmiðla og kenndi fjárskorti um.

Hrafnarnir eru ansi hræddir um að vandamál MAST séu svo verulega að meira að segja upplýsingafulltrúi getur ekki úr þeim bætt.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.