Týr hefur fylgst með kjaraviðræðum um áratugaskeið. Þær hafa sjaldan verið jafn skrýtnar og þær sem nú standa yfir á hinum almenna vinnumarkaði.
Í haust lögðu aðilar hins almenna vinnumarkaðar upp í vegferð sem átti að enda með þjóðarsátt en nú hálfu ári síðar virðist niðurstaðan hvíla á þeirri forsendu að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar. Það kæmi Tý ekki á óvart að hart verði tekist á um á lokametrunum hvort ávaxtaáskriftin eigi ekki að fylgja með og að Samtök atvinnulífsins dragi loks línuna í sandinn við þá kröfu.
Það var vitað að kjarasamningum yrði ekki siglt í höfn án einhverrar aðkomu hins opinbera. Týr gerði ráð fyrir að lendingin yrði einhvers konar breyting á barnabótakerfinu. Það er nokkuð skilvirk leið til að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar sem lagði af stað í þessar kjaraviðræður með hugmyndir um að millifærslukerfinu yrði breytt þannig að Stefán Ólafsson félagsfræðingur yrði sáttur.
Stefnumál VG verður að aðalatriði kjarasamninga
En nú virðist niðurstaðan vera að skólamáltíðir grunnskólabarna verði greiddar úr almannasjóðum. Það er hvíslað að Tý að þetta sé eitthvað sem Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra og Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga hafi dottið í hug. Sem kunnugt er þá hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir verið á stefnuskrá Vinstri grænna um árabil og var málið ítrekað í stjórnmálaályktun á flokksráðsfundi síðustu helgi.
Þessi stefna VG hefur ekki notið neins almenns stuðnings en er nú orðin að úrslitaatriði við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þetta er stórundarlegt. Rétt er að taka fram að síðastliðinn föstudag ályktuðu Samtök íslenskra sveitarfélaga eftirfarandi:
„Stjórn Sambandsins óskar eftir því að ríkisvaldið leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Stjórnin er reiðubúin til samtals um málið á breiðum grundvelli með það að leiðarljósi að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð.“
Mun kosta sveitarfélögin 5 milljarða á ári
Enda má það vera öllum ljóst að fjárhagur sveitarfélaga stendur engan veginn undir þeim kostnaði sem hlýst af því að gera skólamáltíðir grunnskólanema gjaldfrjálsar. Áætlaður heildarkostnaður sveitarfélaga vegna skólamáltíða í grunnskólum er fimm milljarðar á ári. Þar af nemur kostnaður Reykjavíkurborgar ríflega 1,7 milljarði en foreldrar greiða lungað af þeim kostnaði í dag eða um 1,3 milljarð. Fjárhagsstaða Reykjavíkur er grafalvarleg og borgin getur engan veginn borið þennan kostnað til viðbótar við allt hitt.
Þrátt fyrir þetta eru vísbendingar um að sveitastjórnarmenn séu að bogna undan þrýstingi og sést það meðal annars í nýlegum ummælum Einars Þorsteinssonar borgarstjóra og ályktunar sveitastjórnarráðs Framsóknarflokksins sem lýsti á dögunum stuðningi við gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
Hér er því verið að tala um að niðurgreiða kostnað sem foreldrar, sem langflestir hafa sem betur fer efni á að borga skólamáltíðir barna sinna, í nafni einhverrar ímyndaðrar þjóðarsáttar. Þetta er bæði óskiljanlegt og algjörlega óskilvirk leið til að koma til móts við þarfir launafólks.
Týr bendir einnig á að engar líkur séu á því að ruglið stoppi hér. Ætli að krafan um gjaldfrjálsar leikskólamáltíðir komi ekki upp þegar samið verður á opinbera markaðnum. Þá væri heildarkostnaður sveitarfélaga á ári kominn í átta milljarða á ári vegna þessa. Hvers eiga þá foreldrar framhaldsskólanema að gjalda? Kostnaðurinn verður vafalaust enn meiri eftir þá samninga en kennarar hafa til að mynda talað fyrir 30% launahækkunum.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.