Hrafnarnir velta fyrir sér hvort ákall Katrínar Jakobsdóttir um að fyrirtæki gæti sér hófs í arðgreiðslum sökum víðsjárverðra verðbólgutíma og óvissu í kjaramálum hafi einungis átt við einkarekin fyrirtæki.

Að minnsta kosti er Helga Björk Eiríksdóttir formaður bankaráðs ekki að skera við nögl þegar hún leggur til fyrir hönd stjórnarinnar að greiddur verði 16,5 milljarða arður vegna rekstur bankans í fyrra. Vafalaust verður þess ekki að lengi að bíða að fjölmiðlar spyrji forsætisráðherra hvort hún telji þetta hóflega arðgreiðslu.

Greint hefur verið frá því að Arion hafi áhuga á að selja hlutinn sem hann fékk í Eyri í kjölfar veðkalls á Árna Odd Þórðarson. Landsbankinn er meðal hluthafa Eyris og hrafnarnir velta fyrir sér hvort ríkisbankinn geri ekki tilboð í hlutinn. Hann virðist ætla sér að verða afl í ríkisvæðingu einkafyrirtækja en eins og hefur komið fram hafa stjórnendur bankans sýnt áhuga á að kaupa TM af Kviku.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi kom út í blaðinu sem kom 7. febrúar 2024.