Margir kannast eflaust við hið fræga línurit, the hockey stick graph, sem sýnir hækkun meðalhita á jörðinni.

Línuritið sýnir tiltölulega stöðugt ástand framanaf, sem tekur skyndilegan veldisvöxt, eins og hokkíkylfa.

Umræðan um sjálfbærni fyrirtækja, eða a.m.k. sýnileiki hennar, hefur einmitt virst í hokkíkylfuvexti upp á síðkastið. Í dag fer hún að miklu leyti fram undir formerkjum ESG (UFS á íslensku), þ.e.a.s. Environmental / Social / Governance, sem má í mjög einfaldaðri mynd lýsa sem arftaka CSR (Corporate Social Responsibility), GCG (Good Corporate Governance) og Corporate Sustainability. Nýnæmið í ESG felst þó e.t.v. fyrst og fremst í því að nú er unnið að því að gefa þessum áherslum mælanlegt vægi til að leggja mat á sjálfbærni rekstrar fyrirtækja.

Nákvæmari útlistun á því hvernig ESG virkar er hins vegar ekki viðfangsefni þessarar greinar, heldur hvernig ESG er notað sem réttlæting fyrir því að aðrir hagsmunir en hagnaður hluthafa ráði för við ákvarðanatöku félaga.

Endurvinnsla

Þegar forvera ESG hefur borið á góma hefur kenning Milton Friedman, um að tilgangur félaga sé einmitt sá að hámarka hagnað hluthafa, sjaldan verið langt undan. Friedman setti sína kenningu fram á mjög sannfærandi og fágaðan hátt. Það á líkast til sinn þátt í því að umræðunni virðist seint ætla að ljúka um hvort hluthafar eigi einir að njóta ávinnings af rekstri félags eða hvort taka skuli tillit til annarra haghafa (e. shareholder v. stakeholder). Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að þegar rætt er um sjálfbærni, endurnýjanlegar auðlindir og hringrásarhagkerfið, má búast við að heyra þetta kunnuglega stef endurtekið.

Hingað til hefur umræðan um tilgang félaga, og sú spurning til hvaða hagsmuna stjórnendur í félögum ættu að líta til, farið fram á grundvelli hagfræði-, viðskiptaog jafnvel siðferðislegra sjónarmiða. Það er full ástæða til að þessi spurning fái ítrekað þá athygli sem raun ber vitni. Hluthafar eru jú þeir sem hafa sett sína fjármuni inn í félög. Þegar stjórnendur ráðstafa fjárhagslegum hagsmunum félagsins, eru þeir óbeint að ráðstafa fjárhagslegum hagsmunum hluthafa.

Í lagalegu samhengi má hins vegar snúa spurningunni upp á hvernig tilgangur félaga birtist í íslenskum lögum, og hvort eða hvernig ESG áherslur ríma við umboð stjórnenda til ákvarðanatöku í þeim tegundum félaga sem eru algengust á Íslandi, hf. og ehf.

Vilji hluthafa ræður för

Í íslenskum félagarétti er ljóst að vilji hluthafa á að ráða för við ákvarðanatöku í hf. og ehf., svo lengi sem lög kveða ekki á um annað. Má þar nefna vilja hluthafa um tilgang félaga sem birtist í samþykktum félagsins. Krafa um tilgang í samþykktum er hins vegar hlutlaus um hvort hluthafar skuli hagnast á því að félagið sinni tilgangi sínum.

Vilji fólk halda sig við skiptinguna shareholder v. stakeholder, virðist hluthafinn því verða ofan á í íslenskum rétti. Hluthöfum virðist hins vegar heimilt að setja í samþykktir að reksturinn hafi önnur markmið en hagnað. Hámörkun hagnaðar er enda bara ein tegund af hagsmunum sem hluthafar geta haft af rekstri.

Aftur á móti verður að hafa í huga að tilvistargrundvöllur bæði hf. og ehf. er að fjármunir séu til í félaginu. Þegar fjármunir eru uppurnir, verður félag gjaldþrota og hættir í framhaldinu að vera til. En þetta þýðir ekki að fjármunirnir verði sífellt að aukast með þeim afleiðingum að fjárhagslegur hagur hluthafa vænkist án tillits til annarra þátta.

Því virðist ljóst að á Íslandi geti hluthafar sett á fót félög sem hafa tilgang sem heimilar stjórnendum að setja ESG áherslur framar hagnaði, svo lengi sem tilvist félagsins er ekki ógnað.

Felst hámörkun hagnaðar í trúnaðarskyldu stjórnenda?

Félög hafa ekki sjálfstæðan vilja. Því taka félög ekki ákvarðanir, heldur fólkið sem stýrir þeim beint eða óbeint. Nánar til tekið hluthafar, stjórn og forstjóri. Þegar þetta fólk tekur ákvarðanir gegnir það trúnaðarskyldu gagnvart félaginu, m.a. að gæta þess að skerða ekki hagsmuni félagsins.

Hagsmunir félaga eru á endanum fjárhagslegir enda hefur félag hvorki líkama sem hægt er að fangelsa, né spennuþrungið innra tilfinningalíf sem hægt er að særa.

Því mætti spyrja hvort skylda til að skerða ekki hagsmuni félags feli í raun í sér skyldu til að láta ekki nokkra einustu fjárhagslegu hagsmuni renna úr greipum félagsins? Svarið við þessu hlýtur að vera nei, þar sem slíkt viðmið væri óraunhæft. Stjórnendur sem missa af einu tækifæri til hagnaðar eða hagræðingar geta ekki talist sjálfkrafa hafa rofið trúnaðarskyldu um að skerða ekki hagsmuni félags.

Því er ekki að sjá að trúnaðarskylda íslensks félagaréttar krefjist þess af stjórnendum að allar ákvarðanir eigi að miða að því að hámarka fjárhagslega hagsmuni félagsins.

Utanaðkomandi ESG áherslur hafa áhrif á umboð stjórnenda

Þótt íslensk lög leiði ekki til afdráttarlausrar skyldu fyrir stjórn og forstjóra til að hámarka hagnað, situr þetta fólk engu að síður í umboði hluthafa. Í þeim tilvikum sem hluthafar hafa ekki gefið skýr fyrirmæli, nær umboð þetta almennt til ákvarðana sem færa má viðskiptaleg rök fyrir.

Jafnvel þótt þær reynist síðar afleitar, enda er almennt ekki ólögmætt að gera mistök sem stjórnandi með því að taka viðskiptalegar rangar ákvarðanir.

Svo lengi sem viðskiptalegar forsendur eru fyrir ákvörðun sem byggir á ESG áherslum, má því telja stjórnendur innan umboðs. Það vill þá bara svo til í það skiptið að ESG áhersla er viðskiptalega (fjárhagslega) skynsamleg. Aukin hagkvæmni leiðir t.d. oft til minna kolefnisfótspors.

Breyttar kröfur neytenda sem hafa áhrif á eftirspurn, fjárfestar sem bjóða græna fjármögnun á góðum kjörum og kröfur nauðsynlegs starfsfólks um að ESG sé tekið alvarlega, eru allt dæmi um hvernig aukin samfélagsleg áhersla á ESG sjónarmið getur haft áhrif á hvort viðskiptalegar forsendur reynist fyrir ákvörðun sem samrýmist ESG.

Eftir því sem samfélagið breytist má því ætla að fleiri og fleiri ESG-litaðar ákvarðanir falli innan hefðbundins umboðs stjórnenda.

Takmörk á umboði stjórnenda til að taka ákvarðanir byggðar á ESG

Hvað þá með tilvik þar sem ekki er hægt að réttlæta ESG ákvörðun sem viðskiptalega skynsamlega? Í slíkum tilvikum gæti hluthafi sem teldi sig hlunnfarinn haldið því fram að stjórnendur hafi skort umboð til að leggja áherslu á ESG sjónarmið umfram fjárhagslega hagsmuni.

Það verður að viðurkennast að slíkur hluthafi kynni að hafa nokkuð til síns máls. Því gæti verið skynsamlegt fyrir stjórnendur sem hyggjast taka ákvarðanir þar sem ESG sjónarmið ganga framar hagnaði, að minnsta kosti til skemmri tíma litið, að sækja umboð frá hluthöfum.

Hversu skýrt umboð þyrfti, yrði að öllum líkindum einnig að skoða í samhengi hvers tilviks fyrir sig. Til að mynda kann að skipta máli hvernig reksturinn var áður en til áherslubreytinga kom. ESG áherslubreyting í félagi sem hefur um árabil eða áratuga skeið verið rekið með hagnaðarsjónarmið í huga gæti talist svo meiriháttar eðlisbreyting á eign hluthafa, að hyggilegra væri fyrir stjórnendur að ganga lengra fremur en skemur við að sækja skýrt umboð.

Á móti kemur gæti verið á brattann að sækja fyrir ósáttan hluthafa að sanna umboðsleysi, hafi hluthöfum verið tilkynnt um ESG fyrirætlanir án þess að mótmælum hafi verið hreyft. Þess vegna gæti að sama skapi verið skynsamlegt fyrir þá hluthafa sem eru andvígir því að láta annað en hagnað ráða ferðinni að láta þá skoðun sína í ljós, ekki hvað síst ef stjórnendur upplýsa hluthafa um slíkar fyrirætlanir.

Niðurstaða?

Niðurstaðan er þá sú að þótt íslensk löggjöf sem snýr að hf. og ehf. sé orðin nokkuð gömul í árum talið, getur hún haldið í við samfélagslegar áherslubreytingar. Þeir sem kjósa að deila um hver tilgangur félaga ætti að vera geta gert það áfram. En íslenskur félagaréttur veitir hins vegar hvorugri hliðinni sérstakan stuðning.

Ef til vill er praktískasta niðurstaðan þó sú að íslenskir stjórnendur geta áfram stutt við að starfsfólk taki þátt í „Hjólað í vinnuna“ án þess að hafa áhyggjur af umboðsleysi. Enda má færa fyrir því góð rök að það séu viðskiptaleg rök fyrir velferð starfsmanna.