Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, var einn gesta Silfursins í Ríkissjónvarpinu á sunnudag.
Gagnrýni hennar á setningarræðu Bjarna Benediktssonar á flokksþingi Sjálfstæðisflokksins liðna helgi vakti athygli fjölmiðlarýnis. Hanna Katrín gerði athugasemdir við það að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi gert leiðara Fréttablaðsins og áherslu þess á Evrópumál að umtalsefni í ræðu sinni á föstudag. Taldi hún þetta vera árás á frjálsa fjölmiðlum. Orðrétt sagði Hanna í Silfrinu:
„Ég verð samt að segja eitt því hér hefur rætt um þessa opnunarræðu Bjarna. Það sló mig illa hvernig hann nýtti tækifærið til að hnýta fjölmiðil, Fréttablaðið, vegna ritstjórnargreina hans um Evrópusambandið. Því þar lætur Bjarni undir höfuð leggjast að taka sambærilega afstöðu þá til annars fjölmiðils til dæmis Morgunblaðsins sem er á öndverðum meiði í Evrópusambandsmálum, ver hagsmuni stórútgerðarinnar og ver hagsmuni Sjálfstæðisflokksins ef út í það er farið.“
Og enn fremur:
„Þannig þetta er náttúrulega ekkert hlutlaust mat á fjölmiðli eins og þarna kemur fram í máli formanns heldur flokkspólitískt mat. Og það er svolítið hættulegt tal.“
Þetta kom fjölmiðlarýni spánskt fyrir sjónir enda telur hann eðli og stöðu sinnar vegna öllum vera heimilt að gagnrýna fjölmiðla án þess að vera sakaðir um hernað gegn fjölmiðlafrelsi. Gagnrýni á Hlöllabáta er ekki aðför að fæðuöryggi. En áður en lengra er haldið er rétt að skoða ummæli Bjarna sem fóru svo fyrir brjóstið á Hönnu Katrínu:
„Og stundum finnst ég mér sumir fjölmiðlar — heilu fjölmiðlarnir — séu gerðir út til þess að koma á framfæri við landsmenn einhverri skoðun sem er kannski andstæð okkar. Það dylst varla neinum að Fréttablaðið er í áróðri fyrir inngöngu í Evrópusambandið, það er bara þannig. Menn þurfa að átta sig á því.“
Þetta er rétt hjá Bjarna svo langt sem það nær. Fjölmiðlar eru aldrei óháðir og hvað þá hlutlausir. Þetta endurspeglast í ritstjórnarstefnu viðkomandi fjölmiðils. Það hvort að stjórnendur viðkomandi miðla gangist við þessu er svo annað mál.
Bjarni var að benda á að margir leiðarahöfunda blaðsins eru hallir undir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í augum flestra sem lesa leiðara blaðsins reglulega ætti þetta að vera augljós sannindi. Svona rétt eins og að augljóst er að blaðið fylgir Viðreisn að málum eins og má sjá á ritstjórnraefni í blaðinu. Alveg eins og það er augljóst á ritstjórnarefni Morgunblaðsins að það er andvígt inngöngu Íslands í Evrópusambandið og blaðið sé hallt undir stefnumál Sjálfstæðisflokksins.
Það að benda á þessu augljósu sannindi getur ekki með nokkru móti flokkast sem pólitísk atlaga að fjölmiðlafrelsi í landinu eins og Hanna Katrín lætur í veðri vaka. Einnig verður að hafa í huga að oftar en ekki er ritstjórnarefni á borð við leiðaraskrif innlegg í hina pólitísku umræðu. Það er því ekki óeðlilegt að þeim kunni að vera svarað á hinu pólitíska leiksviði eins og gerðist á landsfundinum um helgina. Í raun og veru þetta bara hluti af heilbrigðu samtali andstæðra sjónarmiða í lýðræðislegu þjóðfélagi og fráleitt að tala um aðför að fjölmiðlum í þessu samhengi.
En svo er alveg rétt að líta til hinnar efnislegu gagnrýni Hönnu Katrínar (sem sjálf er reyndar fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu og skrifar enn reglulega dálka á ritstjórnaropnu blaðsins).
Morgunblaðið hefur ritstjórnarstefnu og gengst við henni, en blaðið litur á sig sem brjóstvörn borgaralegra gilda. Það kemur því ekki á óvart þó hún fari oft saman við sjálfstæðisstefnuna, en hjá hinu verður ekki litið að í forystugreinum blaðsins er oft deilt á Sjálfstæðisflokkinn og formann hans fyrir að villast af „réttri“ braut.
Fréttablaðið gefur sig hins vegar út fyrir að vera hlutlaust og leiðarar þess eru ekki einu sinni birtir í nafni blaðsins, heldur sem skoðanapistlar á hefðarstað eftir silkihúfur blaðsins, sem af tilviljun rima í pólitískum efnum fullkomlega við skoðanir Helga Magnússonar, eiganda blaðsins. Þess sama og lagði fjárhagslegan grundvöll Viðreisnar á sinum tíma.
En vilji fólk bera erindi miðlanna saman af þessu tilefni, þá má sjálfsagt lesa eitthvað í það að Fréttablaðið birti leiðara um landsfund Sjálfstæðisflokksins en Morgunblaðið ekki.
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 10. nóvember 2022.