Á harmóníkuböllum liðinna tíma var alla jafna slegið í og kallað: Meira fjör! Enda hafa Íslendingar aldrei haft í hávegum skilgreiningu bandaríska tónlistarmannsins Tom Waits á því hvað felst í að vera herramaður: Sannur herramaður er maður sem kann að leika á harmóníku
en kýs að gera það ekki.
Á þetta er minnst hér sökum þess að umræða undanfarinna missera um efnahagsástandið og verðbólguvandann minnir um margt á harmóníkuball í félagsheimili: Enn og aftur er slegið í og kallað „meira fjör!“ Allir virðast vera sammála um að ráða verði niðurlögum verðbólgunnar en enginn virðist vera reiðubúinn að sætta sig við óumflýjanlegar afleiðingar hækkandi vaxtastigs.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur verið afdráttarlaus í yfirlýsingum þegar kemur að beitingu bankans á vaxtatækinu. Öllum má vera ljóst að ef Seðlabankinn mun þurfa að standa einn í baráttunni fyrir verðstöðugleika, eins og oft hefur verið raunin hér á landi, þá blasir við að vaxtastigið mun verða hærra en ella.
Þrátt fyrir þessi augljósu sannindi er ekki að sjá að núverandi ríkisstjórn sé líkleg til þess að sýna aðhald á næstu árum. Á sama tíma krefst stjórnarandstaðan aðgerða til að verja heimilin fyrir
áhrifum hækkandi vaxta og ákall er um að hjálpa verði ungu fólki að komast inn á markaðinn nú þegar það er farið að verða erfiðara. Verkalýðshreyfingin hótar því að ná til baka hverri krónu sem hefur
farið í hærri afborganir af fasteignalánum úr hendi stjórnenda fyrirtækja í komandi kjarasamningum. Höfum í huga að þessi tónn er sleginn á sama tíma og raunvextir eru þrátt fyrir allt enn vel neikvæðir og engin merki eru um að farið sé að hægja á í hagkerfinu. Af umræðunni mætti halda að ofangreind þróun hafi komið öllum að óvörum og sé einkenni einhvers konar órökréttrar svartsýni sem þurfi að leiðrétta til að koma í veg fyrir kreppu.
Ef við öndum með nefinu og rifjum upp efnahagsrússíbana síðustu ára kom hins vegar skýrt fram og mátti alltaf vera ljóst að eftir fordæmalausar örvunaraðgerðir peninga- og ríkisfjármálayfirvalda meðan á heimsfaraldrinum stóð myndi þurfa að stíga á bremsuna. Nú er einfaldlega komið að skuldadögum. Lækkanir á eignamörkuðum eru ekki einkenni einhverskonar vítahrings ótta og neikvæðni. Eignamarkaðir eru einfaldlega að bregðast við hækkandi vöxtum alveg nákvæmlega eftir skólabókinni, rétt eins og þeir gerðu með ævintýralegum hækkunum á síðasta ári eftir að seðlabankar heimsins keyrðu vexti niður úr öllu valdi og settu prentvélarnar á yfirsnúning. Það kallar ekki á sértækar aðgerðir ríkisvaldsins til að snúa þeirri þróun við.
Eins og flestir vita er stóraukið aðhald peningamálayfirvalda heimsins ekki sprottið af meinfýsni eða illvild heldur illri nauðsyn. Augljósi aðsteðjandi vandinn sem því er beint gegn er verðbólgan, enda þeirra æðsta hlutverk og skylda lögum samkvæmt að viðhalda verðstöðugleika og nota til þess þau tæki sem þeim er treyst fyrir. Í víðara samhengi snýst þetta þó ekki síður um langtímaheilbrigði fjármálamarkaða og samfélagsins alls. Það ætti að vera flestum sem ekki eru blindaðir af góðærisglýjunni ljóst að helmingshækkun hlutabréfa og fjórðungshækkun fasteignaverðs á einu ári er engu samfélagi holl.
Þrátt fyrir að flestir geti verið sammála um að meira fjör sé skemmtilegra þá getur ekki fjörið verið út í hið óendanlega. Hagkerfið verður að leita jafnvægis til að geta vaxið með heilbrigðum hætti. Aðhaldsleysi hefur einkennt peningamálastefnu helstu seðlabanka heims um langa hríð og aðeins var tímaspursmál hvenær vinda þyrfti ofan af þeirri stefnu enda fæst hún ekki staðist til frambúðar. Áhrif þessa gætir hér á landi gegnum milliríkjaviðskipti.
Þrátt fyrir íslenski seðlabankinn hafi losað um aðhald peningamálastefnunnar á tímum heimsfaraldursins eiga þær aðgerðir ekki mikla sök á þeim verðbólguvanda sem við etjum við núna. Ástæðurnar liggja í ríkari mæli í stöðugum vexti ríkisútgjalda óháð hagsveiflunni, ójafnvægi á fasteignamarkaði auk þátta eins og mikillar þenslu vegna framgangs og eflingu nýrra atvinnuvega. Síðastnefndu
þættirnir eru augljóslega ekki neikvæðir en til þess að íslenskt hagkerfi á að geta notið þeirra til frambúðar er nauðsynlegt að styðja við seðlabankann í aðgerðum sínum til þess að ná verðstöðugleika á ný.