Samband íslenskra kvikmyndaframleiðanda svipti nýverið hulunni af nýrri úttekt sem Reykjavík Economics vann að beiðni samtakanna um skattaáhrif greinarinnar. Ætla má að tilgangur skýrslunnar sé réttlæting fyrir áframhaldandi niðurgreiðslu skattgreiðenda til stórra kvikmyndavera í Hollywood.
Hlutfall endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem fellur til við kvikmyndagerð hér á landi var hækkuð upp í 35% eftir að frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi menningarráðherra, var samþykkt á Alþingi sumarið 2022.
Í úttektinni kemur fram að skattalegt framlag kvikmyndagerðar hafi numið 7,4 milljörðum króna árið 2023 en styrkir til kvikmyndagerðar og -náms hafi numið 4,7 milljörðum. Eftir sátu því heilir 2,7 milljarðar.
Hrafnarnir telja því blasa við að stjórnvöld fari nú að skoða niðurgreiðslur til annarra atvinnugreina, t.d. í ferðaþjónustu, til að laða ferðamenn til Íslands og tryggja um leið veldisvöxt gjaldeyristekna inn í ókomna framtíð.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 19. febrúar sl.