Kjördagur nálgast og kosningaskjálfti er hlaupinn í helstu stuðningsmenn forsetaframbjóðendanna.
Í stuðningshóp Baldurs Þórhallssonar er enginn peppaðri en Gunnar Helgason leikari og rithöfundur. Í grein sem hann skrifaði Baldri til stuðnings á Vísi í vikunni fullyrðir hann að Baldur sé „mesti sérfræðingur heims um stöðu og áhrif smáríkja í heiminum“, hvorki meira né minna. Hrafnarnir eru sæmilega skólaðir í stjórnmálafræði og alþjóðamálum og geta talið upp fjölda fræðimanna á sviði stjórnmála og alþjóðamála sem eru töluvert þekktari en Baldur fyrir framlag sitt til fræðanna.
Vafalaust þekkir Baldur einnig til verka þeirra. Hrafnarnir bíða nú spenntir eftir að einhver stuðningsmaður Baldurs ryðjist fram á ritvöllinn og haldi því fullum fetum fram að hann beri ábyrgð á hinum undrastutta afhendingartíma Smáríkisins.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 29. maí.