Talsvert hefur verið rætt um gullhúðun undanfarið en það er þegar stjórnvöld einstakra ríkja innleiða EES-löggjöf í landsrétt með meira íþyngjandi hætti  en þörf er á til að uppfylla skyldur samkvæmt EES-samningnum. Þetta felur m.a. í sér ítarlegri reglur umfram lágmarkskröfur, útvíkkað gildissvið, að undanþágur séu ekki nýttar, strangari skilyrðum í lögum viðhaldið, strangari viðurlögum og að löggjöf sé innleidd of snemma. Skýrar vísbendingar eru um að beiting gullhúðunar í íslenskri löggjöf sé umtalsverð, en slík ráðstöfun er til þess fallin að veikja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og rýra hag almennings.   Íslensk fyrirtæki verða að búa við sambærilegt regluverk og fyrirtæki sem þau keppa við á innri markaðnum.

Talsvert hefur verið rætt um gullhúðun undanfarið en það er þegar stjórnvöld einstakra ríkja innleiða EES-löggjöf í landsrétt með meira íþyngjandi hætti  en þörf er á til að uppfylla skyldur samkvæmt EES-samningnum. Þetta felur m.a. í sér ítarlegri reglur umfram lágmarkskröfur, útvíkkað gildissvið, að undanþágur séu ekki nýttar, strangari skilyrðum í lögum viðhaldið, strangari viðurlögum og að löggjöf sé innleidd of snemma. Skýrar vísbendingar eru um að beiting gullhúðunar í íslenskri löggjöf sé umtalsverð, en slík ráðstöfun er til þess fallin að veikja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og rýra hag almennings.   Íslensk fyrirtæki verða að búa við sambærilegt regluverk og fyrirtæki sem þau keppa við á innri markaðnum.

Utanríkisráðherra kynnti í gær aðgerðir gegn gullhúðun en umræður um mikilvægi þess að koma í veg fyrir hana eru ekki nýjar af nálinni og leitast hefur verið  að koma í veg fyrir hana áður. Samkvæmt núgildandi reglum á innlend lagasetning að meginstefnu aðeins fela í sér þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að endurspegla þá EES-skuldbindingu sem við á, rökstyðja þarf ef frumvarp felur í sér fleiri atriði en innleiðingu og ef minnst íþyngjandi kostur við innleiðingu er ekki valinn ber að tilgreina og rökstyðja þá ákvörðun. Þrátt fyrir þetta hefur verið talsverður misbrestur á því að reglunum sé fylgt í framkvæmd og því mikilvægt að grípa til enn frekari aðgerða til að draga úr hættunni á að gullhúðun eigi sér stað.

Tillögurnar sem kynntar voru í gær fela í sér að í laga- og reglusetningarferlinu sé skýrt tekið fram ef aðildarríkjum er veitt svigrúm við innleiðingu og hvort og hvernig slíkt svigrúm verði nýtt við innleiðingu. Krafa verður gerð um að frávik séu sérstaklega rökstudd og að mat verði lagt á áhrif þess að víkja frá lágmarkskröfum. Með því að draga gullhúðun skýrt fram og rökstyðja, ættu séríslenskar reglur að hljóta lýðræðislega meðferð og umræðu, sem of oft er af skornum skammti.

Það að auka gagnsæi í innleiðingarferlinu er til mikilla bóta en einna mikilvægast er að stjórnvöld leggi mat á áhrif þess að ganga lengra en krafist er. Mikilvægi þess kom skýrt fram í greiningu Viðskiptaráðs á innleiðingu svokallaðrar NFRD tilskipunar ESB hér á landi. Við innleiðinguna var m.a. vikið frá lágmarkskröfum, gildissviðið útvíkkað og gildistöku flýtt með þeim afleiðingum að um átta sinnum fleiri fyrirtæki falla undir skyldu til upplýsingagjafar um ófjárhagslegar upplýsingar. En umfang er eitt og kostnaður annað, samkvæmt greiningunni kostar það hvert íslenskt fyrirtæki 8,2 m.kr. að framfylgja lögunum ár hvert. Heildarkostnaður atvinnulífsins við þessa einstöku gullhúðun er u.þ.b. 2 milljarðar á hverju ári. Það má vissulegar efast um að gullhúðun löggjafarinnar hefði flogið jafn auðveldlega í gegn ef mat á áhrifum hefði verið framkvæmt á sínum tíma.

Ekki nóg með það að innleiðing NFRD með íþyngjandi hætti hafi kostað atvinnulífið fleiri milljarða, heldur hefur umrædd gullhúðun haft í för með sér einskonar Mídasáhrif. Hún hafði t.d. þau áhrif að við innleiðingu á annarri sjálfbærni reglugerð ESB, svokallaðri Taxonomy reglugerð, sem vísar til NFRD hvað varðar gildissvið. En þar sem Ísland innleiddi þá reglugerð með meira íþyngjandi hætti, er gildissvið Taxonomy hérlendis víðtækara en annars staðar í Evrópu. Gullhúðun NFRD varð því til þess að Taxonomy var húðuð gulli.

Eins og fram hefur komið eru nú þegar í gildi reglur og kröfur sem ættu að koma í veg fyrir gullhúðun en samt er hún umtalsverð. Tillögur utanríkisráðherra eru til þess fallnar að draga úr hættunni að hún eigi sér stað en svo tillögurnar nái markmiðum sínum er hér eftir sem endranær nauðsynlegt að þeim fylgi pólitískur stuðningur, eftirfylgni og aðhald. Samkeppnishæfni Íslands er eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar og það er leitun að einfaldari og ódýrari aðgerð stjórnvalda til að auka hana en að einfaldlega hætta að þyngja innflutt regluverk með meintu gulli.

Höfundur er lögfræðingur Viðskiptaráðs.