Iðnaður hefur um áratugaskeið verið burðarás í íslensku hagkerfi. Hann skapar fjölbreytt atvinnutækifæri, stuðlar að verðmætasköpun og er undirstaða sterks samfélags um allt land. Með iðnaði hefur Ísland byggt upp fjölbreytt atvinnulíf sem heldur uppi góðum lífskjörum landsmanna.
Á síðustu árum hefur vægi iðnaðar í hagkerfinu aukist, bæði vegna vaxandi útflutnings og fjölgunar starfa. Í dag er iðnaður stærsta útflutningsgrein Íslands, en tvær af fjórum meginstoðum útflutnings eru innan iðnaðar. Þau lífsgæði sem við njótum á Íslandi í dag væru óhugsandi án sterks iðnaðar sem skapar útflutningstekjur og stuðlar að verðmætasköpun.
Iðnaðurinn stærsta útflutningsgreinin
Útflutningur er forsenda góðra lífskjara á Íslandi. Þar sem við flytjum inn mikið af því sem við þurfum til neyslu og fjárfestinga er nauðsynlegt að afla gjaldeyristekna með öflugum útflutningi.
Á síðasta ári námu útflutningstekjur iðnaðar 750 milljörðum króna eða 39% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Til samanburðar skilaði ferðaþjónustan 32% og sjávarútvegur 18%. Þetta sýnir að iðnaður er burðarás íslensks hagkerfis.
Þróunin hefur verið hröð á síðustu árum. Árið 2010 fóru útflutningstekjur iðnaðar í fyrsta sinn yfir 300 milljarða króna, og síðan þá hefur vöxturinn verið mikill. Í iðnaði eru tvær af fjórum meginstoðum íslensks útflutnings, orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður. Orkusækinn iðnaður á yfir hálfrar aldar sögu útflutnings hér á landi en í fyrra skilaði hann um 23% af heildarútflutningi. Hugverkaiðnaður er yngri grein sem hefur verið í miklum vexti og skilaði sú grein útflutnings 16% útflutningstekna síðasta árs.

Miklar breytingar hafa orðið á útflutningi landsins síðustu áratugi. Ísland hefur færst frá því að vera háð sjávarútvegi yfir í fjölbreyttari útflutning sem byggist í auknum mæli á hugviti. Til þess að þessi þróun geti halda áfram er mikilvægt að skapa hugverkaiðnaði skilyrði fyrir áframhaldandi vöxt.
Vægi hugverkaiðnaðar í hagkerfinu hefur aukist hratt undanfarin ár og ef spár ganga eftir gæti hann orðið verðmætasta útflutningsstoð Íslands árið 2030. Greinin hefur tvöfaldað útflutningstekjur sínar á síðustu fimm árum og ef áætlanir fyrirtækja í greininni ganga eftir mun hún ríflega tvöfalda þær aftur á næstu fimm árum. Þetta sýnir hvernig íslenskt efnahagslíf er að þróast frá hefðbundnum auðlindagreinum yfir í þekkingar- og tæknidrifið hagkerfi. Með fjölbreyttari og öflugri útflutningi eykst efnahagslegur stöðugleiki sem lengi hefur verið kallað eftir.
Miklir hagsmunir Íslands í alþjóðlegum viðskiptum iðnaðar
Evrópumarkaður er mikilvægasti markaðurinn fyrir afurðir íslensks iðnaðar en tugmilljarða útflutningur er einnig til Bandaríkjanna og fer hann vaxandi. Einnig er umtalsverður útflutningur til Evrópulanda utan ESB. Það er því mikilvægt að Ísland gæti hagsmuna sinna bæði gagnvart Evrópu og Bandaríkjunum, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskan iðnað og þar með hagkerfið og samfélagið allt.
Frá Íslandi voru fluttar út iðnaðarvörur til ESB og Bandaríkjanna fyrir um 446 milljarða króna árið 2024. Þar af nam vöruútflutningur til ESB 384 milljörðum króna. Helstu vörur sem fluttar eru út til ESB eru ál og álvörur ásamt öðrum vörum orkusækins iðnaðar. Einnig eru fluttar þangað lækningavörur og -tæki, jarðefni og vörur til endurvinnslu. Til viðbótar voru fluttar út vörur til Evrópulanda utan ESB fyrir 50 milljarða króna það ár. Voru það aðallega ál, álafurðir og lyfjavörur. Hefur útflutningur lyfjavara farið hratt vaxandi til þessara landa.
Verðmæti iðnaðarvara sem fluttar voru til Bandaríkjanna nam 62 milljörðum króna árið 2023. Um er að ræða lækningavörur og -tæki, matvæli, drykkjar- og landbúnaðarvörur, kísiljárn og aðrar iðnaðarvörur.
Jákvæð og víðtæk áhrif fjölbreytts iðnaðar
Iðnaðurinn er fjölbreytt atvinnugrein sem spannar allt frá byggingariðnaði og mannvirkjagerð yfir í orkusækinn iðnað og hugverkaiðnað. Íslenskur iðnaður samanstendur bæði af stórum útflutningsfyrirtækjum og smærri fyrirtækjum sem starfa á innlendum markaði.
Fjöldi starfandi í iðnaði eru nú 52 þúsund. Er þetta tæplega einn af hverjum fjórum starfandi hér á landi, sem undirstrikar mikilvægi hans fyrir atvinnutekjur landsmanna. Frá árinu 2020 hefur fjöldi starfandi í iðnaði aukist um 8.600 manns sem er þriðjungur af fjölgun starfandi í hagkerfinu á þeim tíma. Bendir það til þess að greinin hafi verið einn megin drifkraftur hagvaxtar hér á landi á síðustu árum.
Litið til næstu ára eru væntingar stjórnenda fyrirtækja í iðnaði um áframhaldandi mikinn vöxt. Í nýlegri könnun sem gerð var meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins sögðust 68% vilja fjölga starfsmönnum á næstu 5 árum. Ekki nema 7% vilja fækka. Verði áætlanir stjórnenda iðnfyrirtækjanna að veruleika er ljóst að iðnaðurinn mun halda áfram að vera einn megin drifkraftur aukinnar verðmætasköpunar hér á landi á næstu árum.
Ef horft er til óbeinna áhrifa iðnaðarins má sjá að hann hefur mikil og jákvæð áhrif á aðrar atvinnugreinar. Virðiskeðja iðnaðarins nær til fjölmargra fyrirtækja utan greinarinnar, sem undirstrikar hversu víðtæk áhrif iðnaður hefur á verðmætasköpun í hagkerfinu. Áhrif hans eru því meiri en ofangreindar tölur um umfang og vöxt bera með sér.
Skattspor iðnaðarins stærst útflutningsgreina
Framlag iðnaðar til lífskjara hér á landi má mæla með ýmsum hætti. Skattspor greinarinnar, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna, er umfangsmikið. Endurspeglar það bæði umfang greinarinnar hér á landi og skattbyrði íslenskra iðnfyrirtækja.
Útgjöld hins opinbera eru um 45% af verðmætasköpun hagkerfisins og eru þau fjármögnuð að mestu með skattgreiðslum. Skattbyrði á Íslandi er sú fjórða hæsta meðal OECD-ríkja. Háir skattar skerða alþjóðlega samkeppnisstöðu og draga úr fjárfestingu og vaxtarmöguleikum greinarinnar. Með lækkun skatta og einföldun regluverks mætti efla fyrirtækin, auka verðmætasköpun og tryggja aukinn vöxt iðnaðarins.
Ný greining Reykjavik Economics sýnir að skattspor iðnaðarins er stórt og skilar hinu opinbera verulegum tekjum. Árið 2023 nam heildarskattspor iðnaðar 464 milljörðum króna. Þröngt skattspor iðnaðarins nam 220 milljörðum króna og er þar með stærst allra útflutningsgreina. Til samanburðar nam heildarskattspor ferðaþjónustunnar 180 milljörðum króna og þröngt skattspor hennar 107 milljörðum króna. Þröngt skattspor sjávarútvegs var á sama tíma 89 milljarðar króna.
Árið 2023 námu skatttekjur hins opinbera alls 1.572 milljörðum króna. Af ofangreindum tölum um skattspor iðnaðar má sjá að mikilvægi í fjármögnun á menntakerfi, heilbrigðiskerfi og öðrum þáttum í starfsemi hins opinbera. Útgjöld hins opinbera til menntamála voru þannig til samanburðar 250 milljarðar króna árið 2023 og útgjöld til heilbrigðismála 354 milljarðar króna.
Efla þarf samkeppnishæfni iðnaðar til hagsbóta fyrir þjóðina
Iðnaður er drifkraftur verðmætasköpunar á Íslandi og lykillinn að lífsgæðum landsmanna. Á tímum tæknibyltinga og alþjóðlegra viðskiptahindrana eru áskoranir og tækifæri. Mikilvægt er að efla samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í þágu samfélagsins alls.
Stjórnvöld þurfa að leggja áherslu á málefni sem efla samkeppnishæfni iðnaðar á alþjóðavísu. Þau málefni eru mannauður, nýsköpun, starfsumhverfi, innviðir, orka og umhverfi ásamt greiðum aðgangi að alþjóðlegum mörkuðum. Með áherslum á þessa þætti getur íslenskur iðnaður blómstrað – til hagsbóta fyrir alla þjóðina.
Höfundur er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Pistillinn birtist fyrst í sérblaði Viðskiptablaðsins um Iðnþing.