Í ársbyrjun tóku gildi nýjar Evrópureglur varðandi alþjóðlegan lágmarksskatt á fjölþjóðleg fyrirtæki. Markmiðið með þessu skattasamráði er að auka ,,sanngirni og stöðugleika” í skattaumhverfi ríkjanna, meðal annars í kjölfar áskorana vegna stafvæðingar alþjóðahagkerfisins.

Fyrirtækjaskattar hafa almennt farið lækkandi á alþjóðavísu þar sem flest ríki hafa uppgötvað þá staðreynd að hærri skattar þýða ekki endilega meiri tekjur. Háskattaríki hafa haft sérstakar áhyggjur af þessu svokallaða ,,kapphlaupi á botninn” í fyrirtækjasköttum, enda eru þau að verða undir í samkeppninni um öflug fyrirtæki sem skapa verðmæt störf og tekjur í ríkiskassann.

Fýsísk staðsetning fjölþjóðlegra fyrirtækja í stafrænum heimi ræðst nefnilega mun fremur af hagfelldu skatta- og lagaumhverfi en þjóðerni stofnenda eða aðgengi að náttúruauðlindum, ólíkt því sem áður var. Þessa vitneskju hagnýttu Írar sér og sköpuðu sér sérstöðu út á með því að stilla skattheimtu í hóf, með eftirtektarverðum árangri.

Aftur að samráðinu, hagsmunum hverra þjónar það í raun? Í samráðslöndunum eru væntanlega starfandi samkeppniseftirlit sem hafa það að markmiði að tryggja virka samkeppni, neytendum til hagsbóta. Gilda önnur lögmál þegar kemur að ríkisrekstri? Er virk samkeppni milli landa um hæft fólk og öflug fyrirtæki ekki af hinu góða?

Dræmur hagvöxtur hefur verið sérstakt áhyggjuefni í Evrópu um nokkra hríð. Óskilvirkt, ógagnsætt og misráðið skattasamráð er aðeins enn önnur birtingarmynd þess afdankaða hugsunarháttar sem ríkir í reglugerðamaskínunni og mun engu skila í opinber koffort þegar upp er staðið.

Þau lönd sem standast ekki alþjóðlega samkeppni þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja ættu ef til vill að líta í eigin barm og spyrja sig hvers vegna gullgæsirnar vilji síður verpa hjá þeim. Það væri líklega skynsamlegri leið til að standa vörð um hina digru skattstofna hins opinbera.