Stafrænn mánudagur, eða Cyber Monday, er einn þessara tilboðsdaga sem gerir sérfræðingi Fjölmiðlanefndar lífið leitt. Eins og nafnið gefur til kynna snýst hann um að neytendur geti gert kjarakaup á netinu.
Fréttastofa RÚV virðist aftur á móti hafa misskilið hugmyndafræðina því í kvöldfréttum á sunnudag var fjallað um að annasamur dagur væri í vændum hjá kaupmönnum. Fréttamaðurinn Haukur Holm var sendur á tóman Laugaveg til að segja frá því í beinni útsendingu að búast mætti við að fleira fólk yrði á stjá á verslunargötunni daginn eftir.
Þar tók hann Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, tali en sá gat lítið varpað ljósi á umfang tilboðsdaganna enda engar veltutölur komnar fyrir nóvember mánuð.
Hrafnarnir höfðu einnig gaman að því að Laugavegurinn hafi orðið fyrir valinu en eins og þekkt er orðið hefur fjöldi kaupmanna flutt verslanir sínar þaðan vegna hækkandi leiguverðs og bílastæðaskorts í boði borgarstjóra.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.