Á síðasta áratug hefur orðið missögn að meðaltali verið notað um það bil tvisvar á ári í íslenskum fjölmiðlum ef marka má timarit.is.

Í Íslensku orðabókinni segir: „Missögn (KVK) 1. Ranghermi, mismunandi frásögn, tilbrigði í frásögn. 2. Skökk staðhæfing, mótsögn.” Missögn er því ekki að segja ósatt, skrökva eða ljúga enda orðið afar lítið notað en líklega mun árið 2023 hífa meðaltalið eitthvað upp.

Ástæðan er Eddu Falak málið, sem flestir þekkja. Edda, sem starfar hjá Heimildinni, hafði í viðtölum sagst hafa starfað hjá dönskum fjármálafyrirtækjum. Frosti Logason, sem heldur úti hlaðvarpinu Brotkast, benti í síðustu viku á að þetta væri ekki rétt. Hún hefði aldrei starfað hjá dönskum fjármálafyrirtækjum.

Heimildin sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku vegna málsins en í henni sagði að Edda hafi miðlað því til ritstjórnar að hún hafi „ekki lýst með réttum hætti stöðu sinni gagnvart tilteknum fyrirtækjum á sviði fjármála þegar hún bjó í Danmörku. „Hún biðst velvirðingar á missögninni,” sagði síðan í yfirlýsingunni.

Betra hefði verið að segja „Hún biðst afsökunar á að hafa sagt ósatt” því þannig lítur þetta út.

© RÚV Skjámynd (RÚV Skjámynd)

Eddu Falak málið er einkar áhugavert út frá sjónarmiðum blaðamennskunnar. Heilt yfir má segja að helstu gildi blaðamennskunnar séu sanngirni og nákvæmni. Ef farið er eftir þessum gildum eru yfirgnæfandi líkur að fréttaflutningur verði óhlutdrægur og sem næst sannleikanum en sannleikurinn er algjört lykilhugtak í blaðamennsku.

Egill Helgason hitti naglann á höfuðið þegar hann skrifaði: „Ég á frekar erfitt með afstæðishyggjuna sem felst í því að sannleikur skipti minna máli en hverjir segja hlutina. Ég er ekki viss um að það sé hollt fyrir samfélög og alls ekki fjölmiðla.“

Blaðamaður sem verður uppvís að því að segja sjálfur ósatt í viðtölum þarf að líta í spegil og spyrja sig gagnrýninna spurninga. Að nota orðið missögn ber ekki vott um að það hafi verið gert.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 30. mars.