Stafrænt Ísland er verkefnastofa á vegum ríkisins. Þar starfa tíu manns og þeirra á meðal er meira segja markaðsstjóri.

Stafrænt Ísland er verkefnastofa á vegum ríkisins. Þar starfa tíu manns og þeirra á meðal er meira segja markaðsstjóri.

Verkefni þess er að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu. Með öðrum orðum að aðstoða ríkisforstjóra að gera það sama og hæfur stjórnandi á borð við Skúla Eggert Þórðarson gerði þegar hann leiddi stafræna umbreytingu Skattsins fyrir áratugum. Ríkið hefur varið á þriðja milljarð króna í starfsemi Stafræns Íslands á undanförnum árum.

***

Týr sér ekki betur en að Stafrænt Ísland sé að breytast í einhvers konar ríkisrekna hugveitu. Að minnsta kosti er ekki þverfótað fyrir auglýsingum um ráðstefnu verkefnastofunnar sem fer fram á fimmtudag. Um er að ræða ráðstefnu sem stendur yfir í heilan dag og ber yfirskriftina Tengjum ríkið. Það kostar tæplega átta þúsund krónur að sækja ráðstefnuna og eðli málsins samkvæmt er henni ætlað að höfða til ríkisstarfsmanna. Að minnsta kosti getur Týr ekki séð fyrir sér að stjórnendur í einkafyrirtækjum eyði nokkrum tugum þúsunda til að nokkrir starfsmenn geti setið í heilan dag á Hilton Nordica í góðu yfirlæti. Þetta er gigg fyrir stafræna leiðtoga hjá hinu opinbera.

***

Einn af lykilræðumönnum ráðstefnu Stafræns Íslands er maður að nafni Dave Rogers. Í kynningarefni ráðstefnunnar er honum meðal annars talið til að tekna „að stofna stafræna teymi breska dómsmálaráðuneytisins og stækkaði það úr aðeins níu manns í meira en 1.300“.

Týr veltir fyrir sér hvort sérfræðingar Stafræns Íslands átti sig á þeim tækifærum sem felast í innleiðingu stafrænnar tækni. Þau felast ekki í fjölgun opinberra starfsmanna og útþenslustefnu möppudýra. Í þeim efnum er réttara að horfa til Eystrasaltsins en til Breta, sem eru heimsmethafar í kostnaðarsamri skriffinnsku.

Eigi að síður virðist það vera raunin. Stjórnsýslukostnaður ríkisins hefur þanist út á undanförnum árum og þrátt fyrir að ekki sé mikið um það talað þá virðist ríkið vera á sömu vegferð og Reykjavíkurborg. Þar hafa útgjöld til þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar farið úr einum milljarði í fjóra frá árinu 2018 án þess að nokkur borgarbúi hafi orðið var við bætta þjónustu. Þó telur Týr vert að hrósa borginni fyrir framsækni í þessum efnum en sem kunnugt er fer stafræn þjónusta hennar í sumarfrí.

Það mætti vel halda ráðstefnu um þau mál öll.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.