Svandís Svavarsdóttir vaknaði í morgun og ákvað að gera grín að sjálfstæðismönnum á Alþingi og lýsa því yfir að álit umboðsmanns um að hún hafi brotið lög varði hana engu. Leita þarf í smiðju Láka jarðálfs og ákvörðunar hans einn morguninn um að iðka illvirki sín frekar ofanjarðar frekar en neðanjarðar í leit að samanburði.
Týr telur að með þessu útspili hafi Svandís hent handsprengju á stjórnarheimilið. Láki jarðálfur gekk aldrei svo langt. Efnislega sagði matvælaráðherra í færslu sinni á Facebook að hún ætli að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis með tvennum hætti: Í fyrsta lagi að fá einhvern álitsgjafa til að leggja til breytingar á þessum lögum um hvalveiðar sem henni finnast hvort sem er svo gamaldags og asnaleg. Í öðru lagi að fá ríkislögmann til þess að semja við Kristján Loftsson og Hval hf. um bætur vegna skaðans sem ráðherrann hefur valdið skattgreiðendum með vítaverðri stjórnsýslu sinni.
Tilboð sem vel hægt er að hafna
Týr sér ekki betur en að tilboð Svandísar til þingmanna sjálfstæðismanna sé eftirfarandi: Greiðið atkvæði gegn vantrauststillögu og sættið ykkur við að einhver álitsgjafi úr vinahópi ráðherra semji ný lög um hvalveiðar. Það verður áhugavert að sjá hvað þingheimur segir við tillögu ráðherra um að einhver álitsgjafi úti í bæ verði fenginn til þess að skrifa lög um atvinnustarfsemi. Það segir kannski meira en mörg orð að það vekur litla athygli hversu framúrstefnuleg sú hugmynd er.
Framganga Svandísar er bíræfin svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Viðbrögð þingmanna Sjálfstæðisflokksins við henni munu segja kjósendum flokksins mikið um hvert raunverulegt pólitískt erindi þeirra er.
Týr er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.