Halla Tómasdóttir er nú að taka við embætti forseta Íslands en rafbílakaup hennar og eiginmanns hennar Björns Skúlasonar gerðu gúrkutíð fréttamiðla bærilegri í liðinni viku.

Í kosningabaráttunni sagði Halla að hún muni kalla þjóðina á sinn fund líkt og hún gerði árið 2009 til að ræða grunngildi Íslendinga. Þá valdi þjóðin sér heiðarleika, jafnrétti, réttlæti og ábyrgð sem sín kjarnagildi. Frá því að þessi stefnumótunarvinna um grunngildi þjóðarinnar fór fram hefur ný stétt, markþjálfarar, sótt í sig veðrið en í dag er vinsælast að slíkir séu með forskeytið heilsu í starfstitli sínum. Hvort beint orsakasamband sé þarna á milli ætla hrafnarnir ekki að fjölyrða um.

Hrafnarnir eru þó sammála Höllu um að tímabært sé að uppfæra þessi grunngildi þannig að 7.5% staðgreiðsluafsláttur verði settur í öndvegi ásamt heiðarleikanum, jafnréttinu, réttlætinu og ábyrgðinni. Annars hafa hrafnarnir gaman að því að Halla var grunlaus um að myndin sem var tekin af þeim hjónum ásamt bílnum góða og Agli Jóhannssyni forstjóra Brimborgar yrði notuð til kynningar á samfélagsmiðlum bifreiðaumboðsins. Vafalaust hefur Halla haldið að Egill hafi beðið um myndina til að stilla henni upp innrammaðri við náttborðið.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 31. júlí 2024.