Huginn  og Muninn eru búnir að skemmta sér við að lesa skýrslu um áherslur Samfylkingarinnar í orkumálum.

Eins og áður snúast tillögurnar að því að hækka skatta. En það var ekki það sem hröfnunum þótti skemmtilegt við skýrsluna. Í skýrslunni eru tuttugu og tvær myndir úr starfi flokksins. Kristrún Frostadóttir formaður flokksins er á tuttugu þeirra. Ekki nóg með það þá sendi flokkurinn frá sér mynd frá kynningu á orkustefnu flokksins. Auðvitað er myndin af Kristrúnu sem heldur á skýrslunni sem skreytt er með mynd af henni sjálfri á forsíðu.

Þetta er töluverð bæting hjá Kristrúnu og aðdáendum hennar. Þegar Kristrún steig fyrst allra Samfylkingarmanna inn í Mjóddina síðastliðið haust og kynnti stefnu flokksins í heilbrigðismálum voru aðeins fjórtán myndir af átján í bæklingnum af henni sjálfri.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 1. maí 2024.