Yfirstandandi aðlögun efnahagslífsins að sjálfbærnikröfum er verkefni af slíkri stærðargráðu að samanburður við fyrri iðnbyltingar er viðeigandi. Ólíkt fyrri iðnbyltingum er aðkoma hins opinbera hins vegar umtalsvert meiri, þar sem lögum og stjórnvaldsaðgerðum er í ríkum mæli beitt til að hafa áhrif á athafnir fyrirtækja. Því er rík ástæða til að hugað sé að vönduðum undirbúningi og að kröfur séu einnig gerðar til stjórnvalda.

Yfirstandandi aðlögun efnahagslífsins að sjálfbærnikröfum er verkefni af slíkri stærðargráðu að samanburður við fyrri iðnbyltingar er viðeigandi. Ólíkt fyrri iðnbyltingum er aðkoma hins opinbera hins vegar umtalsvert meiri, þar sem lögum og stjórnvaldsaðgerðum er í ríkum mæli beitt til að hafa áhrif á athafnir fyrirtækja. Því er rík ástæða til að hugað sé að vönduðum undirbúningi og að kröfur séu einnig gerðar til stjórnvalda.

Fyrstu fjórar iðnbyltingarnar

Lífsskilyrði nútímans eru afleiðing fyrri iðnbyltinga. „Iðnbyltingin“ með stórum staf og greini var keyrð áfram með gufuafli og kolum; önnur iðnbyltingin, nýtti olíu og rafmagn; þriðja iðnbyltingin byggðist á sjálfvirkni og tölvuvæðingu og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn, fjórða iðnbyltingin, kynnir til sögunnar gervigreind og magngögn (big data).

Allar eiga iðnbyltingarnar það sameiginlegt að hafa gjörbreytt samfélaginu. Framleiðsluhættir hafa tekið miklum breytingum, viðskipti orðið liprari, og innviðir byggst upp. Notkun orðsins bylting á því réttilega við. Lífsgæði hafa líka heilt yfir aukist samhliða iðnbyltingum, ef ekki vegna þeirra.

Iðnbyltingarnar eiga það sammerkt að þær spruttu fyrst og fremst upp úr einkaframtaki, sem viðbrögð við takmarkaðri afkastagetu eða öllu heldur sem lausnir til að auka afköst. Þegar slíkar lausnir náðu útbreiðslu, uxu afköst og hagræði, sem aftur skapaði hvata fyrir enn fleiri til að tileinka sér nýjar lausnir, auka afköst og hagræði og svo koll af kolli.

Þó þessar iðnbyltingar hafi sprottið úr einkaframtaki, þýðir það ekki að stjórnvöld hafi ekki haft hönd í bagga. Til að mynda hefur vafalaust munað verulega um stjórnvöld sem kaupendur tækniþróunar og vöru eða jafnvel sem fjármögnunaraðila. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki verið með öllu fjarverandi í fyrri iðnbyltingum, voru þær í öllu falli ekki sprottnar úr lagaboðum ríkisvaldsins um að finna skyldi upp eimreiðina, sprengihreyfilinn, færibandið eða brauðrist með gervigreind.

Breytingar eða umbylting?

Nú háttar svo til að mörg vestræn ríki hafa með einum eða öðrum hætti lýst því yfir að hagkerfi þeirra eigi að verða sjálfbær. Loftslagsaðgerðir eru lykilþáttur í sjálfbærni og á grundvelli samstarfs samkvæmt EES-samningnum fylgir Ísland ESB að málum. Aðgerðaáætlun ESB, sem ber heitið Fit for 55, felur bæði í sér lagalegar nýjungar og breytingar, sem stuðla eiga m.a. að því að loftslagsmarkmið sambandsins verði í höfn í tæka tíð.

Þegar er ljóst að aðgerðaráætlun ESB mun hafa víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Hvert endanlegt umfang þessara áhrifa verða er hins vegar ekki ljóst, enda ekki allar lagabreytingar komnar fram; þó mörgum kunni að þykja nóg um nú þegar. Þegar horft er til þess að áhrifa mun ekki síst gæta á sviðum orkuöflunar og kolefnislosunar framleiðsluferla, væri þó óráðlegt að telja áhrifin minni en meiri.

Því verður að horfast í augu við að það verði ekki endilega ódýrt að venja jarðefnaeldsneytisdrifin hagkerfi af þeirri olíu sem hefur bókstaflega smurt hjól atvinnulífsins.

Hvaða nafni sem þessar breytingar munu á endanum verða kallaðar, má búast við því að þær standi fyrri iðnbyltingum fyllilega á sporði m.t.t. áhrifa á hagkerfi heimsins og samfélög í heild. Í öllu falli er tæpast ofsögum sagt að það geti réttilega talist bylting að gera hagkerfi heimsins sjálfbær.

Ólík fyrri iðnbyltingum

Glöggir lesendur hafa að öllum líkindum rekið augun í að samkvæmt framansögðu er þessi iðnbylting ólík fyrri iðnbyltingum. Hún deilir nefnilega ekki því megin-einkenni að spretta úr einkaframtaki. Þess í stað virðist eiga að ýta henni úr vör með þrýstingi stjórnvalda, í gegnum stefnumörkun og löggjöf.

Annað sem aðgreinir yfirstandandi iðnbyltingu frá fyrri iðnbyltingum eru fyrirséð áhrif á batnandi lífsgæði. Lífsgæði má mæla á ýmsa vegu, en líkast til styðst flest fólk við efnahagslega velsæld sem mælikvarða á lífsgæði. Hér kann að vera að þessi iðnbylting skilji sig frá fyrri iðnbyltingum, þó það sé ekki endilega óumflýjanlegt.

Í einhverjum tilvikum verða orkuskipti einföld viðfangs. En því miður eru ekki allir ávextir neðst á trjánum. Því verður að horfast í augu við að það verði ekki endilega ódýrt að venja jarðefnaeldsneytisdrifin hagkerfi af þeirri olíu sem hefur bókstaflega smurt hjól atvinnulífsins.

Að sama skapi munu takmarkanir á losun kolefnis hafa í för með sér kostnað, hvort heldur er fyrir tilstilli kolefnisgjalda eða viðskiptakerfa losunarheimilda. Þannig má búast við að kostnaður af kolefnislosun vöru og þjónustu endurspeglist í verðlagningu til framtíðar.

Þá er ekki óvarlegt að búast við kostnaði við að aðlaga innviði sem hafa verið byggðir upp síðastliðna áratugi að sjálfbærni-kröfum. Í einhverjum tilvikum kann einnig að verða þörf á nýjum innviðum.

Af framangreindum ástæðum væri e.t.v. rétt að slá á væntingar um að yfirstandandi iðnbyltingu muni fylgja sambærileg aukning efnahagslegrar velsældar og framkallaðist vegna fyrri iðnbyltinga.

Tækifæri fyrir nýja tækni

Tvennt gefur þó fyrirheit um að ekki sé eintómt svartnætti fyrir höndum.

Í fyrsta lagi kynni það að vera enn kostnaðarsamara til langs tíma litið að aðhafast ekkert í loftslagsmálum. Ekki aðeins efnahagslega, heldur einnig hvað varðar raunveruleg lífsskilyrði á jörðinni. Á þann mælikvarða má segja að ef það tekst að gera hagkerfi sjálfbær, hafi tekist að tryggja meiri lífsgæði en minni. Í ljósi þess að aldrei hefur jafn margt fólk haft það jafn gott og núna, væri það jafnvel afrek að gera hagkerfi sjálfbær án þess að lífsgæði skerðist.

Í öðru lagi á enn eftir að taka tillit til þess hvers tækniþróun er megnug. Kannski ekki síst fyrir tilstilli þeirra framfara sem leiðir af fjórðu iðnbyltingunni. Þótt eitt af einkennum yfirstandandi iðnbyltingar sé að löggjafinn ýtir henni úr vör með kröfum, er eftir sem áður líklegast að einkaframtakið finni hagkvæmustu lausnirnar. Í því er hin raunverulega bylting vonandi falin.

Ef vel er staðið að þeirri löggjöf sem ætlað er að sjálfbærnivæða hagkerfi, ætti að vera mögulegt að búa til fjárhagslega hvata til að þróa þær lausnir sem þarf til að bregðast við sjálfbærnikröfum. Þá kann hagkvæmni þessarar iðnbyltingar m.a. að felast í því að dregið verði úr kostnaði sem áður var úthýst svo hann rati síður inn í verð þjónustu og vara.

Gagnkvæmar kröfur til hins opinbera

Þar sem skýrasta aðgreining þessarar iðnbyltingar frá hinum fyrri er annars vegar óvissa um aukna efnahagslega velsæld, og hins vegar uppruni hennar í þrýstingi frá stjórnvöldum, er nauðsynlegt að allir hlutaðeigandi haldi rétt á spöðunum.

Ísland stendur nú þegar betur að vígi en mörg önnur ríki hvað varðar markaðsaðstæður. Fyrirkomulag orkuframleiðslu og hátt menntunarstig eru meðal þess sem ætti að auka líkurnar á því að hér megi þróa einhverjar af þeim lausnum sem munu reynast sigurvegarar yfirstandandi iðnbyltingar. Jafnvel þær lausnir sem valda því að efnahagsleg velsæld haldi áfram að aukast samhliða þessari iðnbyltingu, eins og hinum fyrri.

En stjórnvöld verða einnig að standa undir sinni ábyrgð. Þar sem krafa um innleiðingu sjálfbærni í framleiðsluferla hagkerfisins kemur frá stjórnvöldum, er ábyrgð þeirra æði mikil. Því má telja eðlilegt og réttlátt að þær kröfur séu gerðar til hins opinbera að það vandi til verka við innleiðingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla, meti ætluð áhrif með sem víðtækustum hætti og gefi frá sér skýr skilaboð sem stuðla að fyrirsjáanleika. Að endingu þarf að gæta þess sérstaklega að önnur lög eða stjórnsýsluvenjur standi ekki vegi fyrir nauðsynlegri nýsköpun.