Undanfarið hafa myndbönd þar sem ungir starfsmenn tæknifyrirtækja á borð við Meta og Google lýsa hefðbundnum vinnudegi sínum, farið sem eldur um sinu samfélagsmiðla.

Ekki hefur síst vakið athygli hversu lítið fer fyrir raunverulegu vinnuframlagi í téðum myndböndum: Dagurinn byrjar á afslöppuðum morgunverði í mathöll fyrirtækisins og eftir starfsmennirnir svara nokkrum tölvupóstum er haldið í langan hádegisverð. Restin af deginum einkennist af netrápi og ráfi á mill ógrynni þeirra afþreyingarherbergja sem vinnuveitandinn heldur úti til að hafa ofan af fyrir starfsfólkinu. Klukkan fimm stimplar þetta fólk sig svo út.

Ekki er að undra að töluverð umræða eigi sér nú stað hversu mörg stöðugildi eru hjá fyrirtækjum eins og Meta og Twitter. Lykillinn að velgengni þessara fyrirtækja, auk annarra tæknifyrirtækja sem fóru með himinskautum undanfarin áratug, fólst meðal annars að starfsemin var hvorki mannaflsfrek né fjármagnsfrek. Breski sagnfræðingurinn Edward Chancellor benti á þetta í grein á dögunum og á þá staðreynd að rekstur þeirra þandist út á meðan vextir voru lágir. Endurspeglast það meðal annars í gríðarlegri fjölgun starfsmanna meðan allt lék í lyndi. Fyrrum starfsmaður Facebook bendir á að þegar hann starfaði hjá félaginu var það með 200 stöðugildi. Hann klóraði sér í kollinum þegar starfsmennirnir voru orðnir 20 þúsund. Í dag eru þeir 70 þúsund. Fram undan er mikil uppsagnahrina í þessum og öðrum tengdum geirum.

Straumhvörf hafa orðið á fjármálamörkuðum. Langt tímabil sem mótaðist af lágum vöxtum og mjög líklega rangri verðlagningu fjármagns hefur runnið sitt skeið á enda. Eins og Warren Buffet benti á sínum tíma þá er það ekki fyrr en í útfalli öldunnar að í ljós kemur hverjir það voru sem syntu naktir. Vextir verða hærri í fyrirsjáanlegri framtíð og baráttan um fjármagn mun harðna.

Eins og Chancellor bendir á þá standa fyrirtæki sem hafa traustan efnahagsreikninga, hóflegar skuldir og sterkt eiginfjárhlutföll best að vígi um þessar mundir. Það er einmitt þetta sem einkennir stöðu helstu og veigamestu fyrirtækja Íslands um þessar mundir. Það sýnir sig að heilt yfir hafa félög verið að reyna að breyta fjármagnsskipan með því að kaupa eigin hlutabréf í gegnum endurkaupa áætlanir sem og með arðgreiðslum undanfarin ár í stað þess að veita fjármagni í glórulausan og oft á tíðum vanhugsaðan vöxt.  Hugsanlega má það rekja til þeirrar staðreyndar að lágvaxtarskeiðið stóð yfir í mun skemmri tíma hér á landi en annar staðar.

En hvað með önnur svið efnahagslífsins? Staðreynd málsins er nefnilega að ytra umhverfi hefur ýtt undir ósjálfbæran vöxt hins opinbera og stofnana þess undanfarin ár. Þessi vöxtur hefur verið fjármagnaður með tiltölulega ódýru lánsfé í stað skattahækkana. Birtingarform þessa vaxtar má meðal annars sjá í hvernig stöðugildi opinberra stofnanna hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Hagstæð ytri skilyrði voru nýtt til söfnunar á rekstrarlegu spiki í stað nauðsynlegri fjárfestinga sem hefðu leitt til aukinnar skilvirkni.

Rekstur Reykjavíkurborgar undanfarin ár er sorglegur minnisvarði um þetta. Þeir sem stýra fjárhag borgarinnar nýttu sér lágvaxtaskeiðið til að auka söfnun skulda, einkum og sér í lagi verðtryggðra skulda. Í sumum tilfellum var þessi skuldasöfnun hvítþvegin með svokallaðri grænvottun. Svo virðist sem þessi skuldasöfnun hafi fyrst og fremst farið í að þenja út miðlægt stjórnkerfi borgarinnar og fjölgunar starfsmanna á skrifstofu. Þróun sem gagnast borgarbúum lítið sem ekki neitt. Á sama tíma var ekki ráðist í framkvæmdir á borð við Sundabraut sem flestir gera sér grein fyrir að sé óumflýjanleg. Á þetta benti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fyrir tveimur árum og fékk bágt fyrir.

Þau straumhvörf sem hafa orðið á fjármálamörkuðum að undanförnu setja aðhald og ábyrga fjármálastjórn á dagskrá stjórnmálanna. Ljóst er að auðvelt verður að ráðast til verka í þeim efnum enda er spikið í rekstri hins opinbera það mikið að hægt er að skera niður án þess að það bitni á þeirri grunnþjónustu sem flestir eru sammála um að ríkið og sveitarfélög eigi að veita.