Ragnar Þór Ingólfsson, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík norður, var spurður í Silfrinuá mánudag út í ákall Ásthildar Lóu Þórhallsdóttur, sem leiðir flokkinn í Suðurkjördæmi, á dögunum um að neyðarlög yrðu sett á Seðlabankann og sjálfstæði hans þar með afnumið.
Ragnar var fljótur til svars og sagði samflokkskonu alls ekki hafa kallað eftir þessu. Það er ekki rétt og greinilegt er að Ragnar hefur steingleymt að hann og Ásthildur skrifuðu grein á Vísi í ágúst þar sem kallað er eftir beitingu neyðarlaga ef Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lækki ekki vexti.
Annars er hugur hrafnanna hjá Ásgeiri og velta þeir fyrir sér hvaða fúkyrðaflaumi hann verður fyrir eftir að Flokkur fólksins myndar ríkisstjórn með Samfylkingunni og Viðreisn. Ásthildur hefur kallað Ásgeir „vaxtafíkil“ og Guðmundur Ingi Kristinsson segir hann vera „ofsatrúar og hryðjuverkabankastjóra“.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. desember 2024.