Oddvitar Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins tilkynntu á miðvikudaginn í síðustu viku að formlegar viðræður væru hafnar um myndun nýs meirihluta í Reykjavík. Þegar þetta var tilkynnt höfðu flokkarnir átt í óformlegum viðræðum dagana á undan.

„Markmið okkar er að setja velferð og lífskjör allra Reykvíkinga í forgrunn,“ sagði í tilkynningu oddvitanna í síðustu viku. Markmiðið er göfugt en mjög óljóst. Vonandi skýrist í vikunni hvað þessir flokkar ætla sér að gera á þeim 15 mánuðum sem er til næstu kosninga. Það er ekki margt hægt að gera á svo stuttum tíma og þess vegna vekur nokkra furðu að flokkarnir séu ekki búnir að klára viðræðurnar.

Oddvitarnir hafa flestir verið spurðir að því hver þeirra muni setjast í borgarstjórastólinn eða hvort utanaðkomandi verið fenginn í starfið en svarið er að alltaf það sama. Að það verði ekki rætt fyrr en búið sé að ná saman um málefnin.

Fimm konur leiða flokkana sem nú eiga í viðræðum og gaf Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, þeim nafnið kryddpíurnar. Hinar raunverulegu kryddpíur (e. Spice Girls) voru einmitt fimm talsins. Engin þeirra lék á hljóðfæri og frægasta lagið þeirra var „Wannabe“.

En hvað þýðir það fyrir Reykvíkinga ef þessir flokkar mynda meirihluta, sem allt stefnir í. Það þýðir að Samfylkingin heldur áfram að stjórna borginni, sem stærsti flokkurinn í meirihlutanum. Samfylkingin hefur verið við völd í Reykjavík samfleytt í 15 ár eða frá 2010. Á ólgutímanum í kringum bankahrunið, kjörtímabilið 2006 til 2010 var Samfylkingin einnig við völd í nokkra mánuði. Fyrir þann tíma eða frá 1994 til 2006 réði Reykjavíkurlistinni lögum og lofum. Á síðustu 30 árum hafa Vinstri flokkar því haft tögl og hagldir í borginni í ríflega 26 ár.

Rifjum aðeins upp stjórn borgarinnar frá árinu 2010. Kjörtímabilið 2010 til 2014 mynduðu Besti flokkurinn, undir forystu Jóns Gnarr, og Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar, meirihluta.

Eftir kjörtímabilið liðaðist Besti flokkurinn í sundur og gekk inn í Bjarta framtíð. Besti flokkurinn fékk 35% atkvæða í kosningunum 2010 og sex borgarfulltrúa. Í kosningunum 2014 fékk Björt framtíð tæplega 16% og tvo borgarfulltrúa. Samfylkingin og Björt framtíð fengu 7 af 15 borgarfulltrúum í kosningunum, sem túlka má sem svo að kjósendur hafi hafnað meirihlutanum. Samfylkingunni tókst samt sem áður mynda nýjan meirihluta. Auk Bjartrar framtíðar fékk Samfylkingin Pírata og Vinstri græna til liðs við sig.

Borgarfulltrúum var fjölgaði úr 15 í 23 í kosningunum 2018. Björt framtíð bauð ekki fram lista í Reykjavík og kjósendur flokksins voru greinilega ekki á þvi að halda lífi í meirihlutanum með því að kjósa einhvern hinna þriggja sem myndað höfðu meirihluta með Bjartri framtíð. Samfylkingin, Píratar og Vinstri græn fengu samtals 10 borgarfulltrúa, sem enn og aftur má túlka sem svo að kjósendur hafi fellt meirihlutann. Samfylkingin, Píratar og VG dóu ekki ráðalaus heldur fengu enn eitt varadekkið til að mynda nýjan meirihluta. Nú var það Viðreisn, með sína tvo borgarfulltrúa.

Í kosningunum 2022 fengu meirihlutaflokkarnir fjórir, Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Viðreisn einungis 10 borgarfulltrúa kjörna. Kjósendur höfnuðu þar með meirihlutanum enn á ný. Það skipti samt engu því VG var hreinlega skipt út fyrir Framsóknarflokkinn, sem unnið hafði stórsigur í kosningunum og fengið fjóra borgarfulltrúa kjörna. Þar með varð ljóst að Samfylkingin yrði áfram við völd.

Það er kannski óþarfi að tíunda nákvæmlega atburðarráðs síðustu daga en eins og kunnugt er þá sleit Einar Þorsteinsson borgarstjóri meirihlutasamstarfinu í Reykjavík föstudaginn 7. febrúar. Framsóknarflokkurinn hóf meirihlutaviðræður við Viðreisn, Sjálfstæðisflokkinn og Flokk fólksins. Þær virtust ganga vel allt þar til Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, steig fram og tilkynnti að flokkurinn myndi ekki taka þátt í að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni.

Samfylkingin var þá enn og aftur komin í kjörstöðu og nú er útlit fyrir að kryddpíurnar stjórni borginni næstu 15 mánuði. Taka má fram að áður en meirihlutaviðræður hófust árið 2018 gaf Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, það út að flokkurinn hafnaði meirihlutasamstarfi með einmitt þeim flokkum sem hún á nú í viðræðum við, þ.e. Samfylkingu, VG, Pírötum og VG. Við það tilefni vitnaði hún í fræga ræðu Malcolm X og sagðist „ekki geta unnið að hagsmunum fólksins á akrinum liggjandi á dýnu í kjallara þrælahaldarans.“

Afstaða Sósíalista hefur augljóslega mildast á þeim árum sem liðin eru og Sanna búin að koma sér huggulega fyrir á dýnunni.

Kosið verður til borgarstjórnar þann 16. maí á næsta ári. Þá munu kjósendur þurfa að gera það upp við sig hvort þeir vilji að Samfylkingin stýri borginni um aldur og ævi eða hvort það sé komin tími á breytingar.

Það er fyrir löngu kominn tími á breytingar.