Um daginn hlustaði ég á viðtal við málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Viðtalið var ekki um stöðu íslenskunnar eða lélega lestrarkunnáttu yngstu kynslóðarinnar, heldur um orð ársins. Ríkisútvarpið, með hjálp almennings, hefur nefnilega í nokkur ár valið orð sem þykir hafa sett sérstakt mark á umræðu ársins. Þetta er gert víða, t.d. valdi Economist þetta árið orðið ChatGPT, ef orð skyldi kalla. Tímaritið velti fyrir sér öðrum orðum sem tengjast „generative AI“ eða spunagreind, eins og þessi gervigreind er nefnd á íslensku, en komst að þeirri niðurstöðu að ChatGPT væri málið. Niðurstöður úr leitarvélum sýndu að fólk leitaði 90 sinnum oftar að ChatGPT en spunagreind og stundum næðu heiti meiri fótfestu en fyrirbrigðið sem þau stæðu fyrir. Dæmi um það er sögnin að gúgla sem hefur fengið sinn sess í íslenskri orðabók, með skýringunni „leita að e-u á Netinu með hjálp leitarvélar, upphafl. leitarvélarinnar Google“.
Þegar þetta er skrifað er ekki enn ljóst hvaða orð verður fyrir valinu hjá Ríkisútvarpinu, en meðal þess sem málfarsráðunauturinn benti réttilega á, er að minni okkar nær oft býsna stutt. Þess vegna datt mér líklega fyrst í hug orðið tilboðskvíði, enda svörtudagur (sem er frábært orð) nýliðinn og talsvert var rætt þá um þennan nýjasta meðlim kvíðafjölskyldunnar, sem táknar óttann við að missa af góðu tilboði.
Sigdalur er ekki nýtt orð, en jarðhræringar í Grindavík gerðu það ljóslifandi í huga allra landsmanna, þegar bærinn seig, hús skemmdust og götur fóru í sundur. Sem betur fer án manntjóns, en annað tjón er mikið og ekki séð fyrir endann á vanda bæjarbúa. Vinir og vandamenn hafa hlaupið undir bagga með Grindvíkingum, félagasamtök og fyrirtæki lagt sitt af mörkum og ríkið brúað ýmis bil. Það er gott að vita að þessi samtakamáttur er fyrir hendi hjá okkur þegar á reynir.
Miðlunartillaga gæti líka verið orð ársins, ef horft er lengra aftur í tímann. Árið hófst nefnilega með átökum á vinnumarkaði, þrátt fyrir að gerður hafi verið kjarasamningur við stóran hluta almenna vinnumarkaðarins í lok þess síðasta. Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, lýsti honum í Kastljósi sem besta samningi sem hann hefði séð, alla sína hunds- og kattartíð. Efling hafnaði samfloti, deildi áfram við SA og ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu en fékk ekki félagatal Eflingar til að kosning gæti farið fram. Málið endaði í Landsrétti, sem sagði tillöguna löglega en á stéttarfélaginu hvíldi engin skylda til að afhenda kjörskrá. Ríkissáttasemjari steig til hliðar, nýr kom inn á völlinn með nýja tillögu sem fól í sér sambærilega niðurstöðu við samflotssamningana – og var samþykkt. Einhver gæti spurt hvort það hefði ekki verið sniðugt að gera það bara strax.
Lesskilningur kom sterkur inn nú í lok árs, eða öllu heldur skortur á honum. Íslenskir unglingar komu verr út úr nýjustu PISA-könnuninni en nokkru sinni fyrr og höfum við þó ekki riðið feitum hesti frá henni í samanburði við nágrannaþjóðir okkar fram að þessu. Ein vinkona mín velti því þó fyrir sér, eftir að hafa lesið misgáfulegar athugasemdir við eina af stærri fréttum desembermánaðar, hvort fleiri kynslóðir en unga fólkið okkar ættu hugsanlega í vandræðum með að lesa sér til gagns.
Salan á Kerecis í sumar færði okkur eitt skemmtilegasta orð ársins: Einhyrningur. Einhyrningar eru auðvitað töfraverur og er vöxtur og verðmæti Kerecis töfrum líkast, fyrsta íslenska nýsköpunarfyrirtækisins sem metið er á yfir milljarð dala. Orkuskortur er ekki eins skemmtilegt orð, sem hefur þó verið talsvert í umræðunni og gæti einmitt hindrað vöxt og verðmætasköpun, að ógleymdum töfum á leiðinni að kolefnishlutleysi. Í leiðinlega flokkinn fara líka orðin verðbólga og stýrivaxtahækkun, sem verða vonandi minna notuð á næsta ári.
Með þetta allt í huga væri sennilega gott að bæta menntun og auka lesskilning, svo við getum í framtíðinni eignast fleiri einhyrninga og tryggja þeim um leið næga orku á samkeppnishæfum vinnumarkaði sem leggur sitt af mörkum til efnahagslegs stöðugleika. Við náttúruöflin ráðum við ekki og ég treysti mér ekki til að fullyrða hvort einhver lausn á tilboðskvíðanum er í sjónmáli.
Gleðilegt ár!
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði