Bæjarráð Fjarðarbyggðar ályktaði í byrjun vikunnar og beindi því til stjórnvalda að meta að nýju hagkvæmni olíuleitar á Drekasvæðinu í ljósi þess að orkuskipti ganga hægar en gert var ráð fyrir. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að rannsóknir á Drekasvæðinu ættu að hafa sinn gang burtséð frá þróun orkuskipta, en það er önnur umræða og tengist nýtingu á auðlindum lands og sjávar.

Það kemur ekki á óvart að sveitarfélag hvers hagsmunir eru jafn nátengdir raunhagkerfinu og hjá þeim í Fjarðarbyggð nálgist mál sem þessi af skynsemi. Þarna þekkja menn mikilvægi stóriðjunnar, orkunnar, sjávarútvegsins og fleiri grunnþátta íslensks samfélags og hagkerfis.

Vafalaust hefur þeim í Fjarðarbyggð þótt fráleit áform vinstri stjórnarinnar sem var við völd í ein sjö ár, þar til nýja vinstri stjórnin tók við undir síðustu áramót, en í stjórnarsáttmála áris 2021 stóð: „Ríkisstjórnin mun ekki gefa út nein leyf til olíuleitar í efna­hagslögsögu Íslands“.

Steininn tók svo úr í september 2022 þegar þingmálaskrá birtist og umhverfis- orku og loftslagsráðherra tilkynnti um framlagningu frumvarps, þar sem átti að banna rannsóknir!

Flestum hefði þótt duga að segja slíkt upphátt til að hætta við, en ekki gömlu vinstri stjórninni.

Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2022 stóð: „Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni (bann við olíuleit). Með frumvarpinu er lagt til að stefnu stjórnvalda verði fylgt eftir með lagasetningu þar sem lagt er bann við því að veita leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis (olíu) í efnahagslögsögunni.“

Sem betur fer varð ekkert úr þessu máli. Mögulega að hluta til vegna yfirvofandi skemmtiþátta þingflokks Miðflokksins þar sem þetta alvarlega mál hefði verið haft að háði og spotti, hver veit.

En svo kom nýja vinstri stjórnin.

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, þingmaður Miðflokksins, spurði orkumálaráðherra, Jóhann Pál Jóhannsson að því hvort hann væri tilbúinn að stuðla að því að rannsóknar- og leitarleyfi kolvetna verði gefin út, til að mynda fyrir Drekasvæðið, svo að taka megi upplýsta ákvörðun til framtíðar.

Ráðherrann var venju fremur skýr í svörum: Stutta svarið er nei, það er ekki áherslumál hjá þessari ríkisstjórn að halda áfram olíuleit. Og ráðherrann hélt áfram: það er ekki á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn að gefa út rannsóknar- eða hvað þá vinnsluleyfi fyrir olíu í íslenskri lögsögu.

Drill, baby, drill!

Á sama tíma dæla Norðmenn út nýjum rannsóknar- og nýtingarleyfum af svipuðum krafti og olían kemur úr borholum þeirra.

Norðmenn hafa á undangengnum 10 árum gefið út 660 leyfi til olíu og gasleitar eða vinnslu. Á sama tíma höfum við ekki gefið út eitt einasta slíkt leyfi.

Færeyingar eru með 12 virk leyfi að fullu eða að hluta innan sinnar lögsögu. Danir eru sömuleiðis með virk leyfi innan sinnar lögsögu.

Nú ber svo við að landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt fullveldisrétt Íslands yfir landgrunni Reykjaneshryggjar. Landgrunnssvæðið sem samþykkt var af nefndinni er töluvert víðfeðmt og nær rúmar 570 sjómílur frá grunnlínum, 370 sjómílur út fyrir 200 mílna efnahagslögsögu Íslands.

Þar er talið að finna megi auðlindir á borð við olíu, gas og jarðhita. Hver ætli afstaða stjórnvalda verði við mögulegum áhuga á rannsóknum á því svæði? Ætli hún verði ekki: það er ekki á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn að gefa út rannsóknar- eða hvað þá vinnsluleyfi í íslenskri lögsögu?!

Auðvitað eigum við sem þjóð að nýta auðlindir okkar með skynsamlegum hætti.

Sú undarlega ákvörðun að tengja okkur með Norðmönnum við ESB í aðgerðum er varða loftslagsmál vekur furðu flesta daga, en kannski sérstaklega þegar litið er til með því hvernig þjóðirnar nýta auðlindir sínar undir hafsbotni í formi olíu og gasauðlinda með ólíkum hætti.

Hvort sem horft er til olíu, gass eða jarðvarma, þá ætti dagsskipunin að vera: Drill, baby, drill! Af þessu öllu þarf nú um stundir meira, ekki minna.

Höfundur er formaður þingflokks Miðflokksins.