LinkedIn er samfélagsmiðill sem er alls ekki eingöngu fyrir atvinnulaust markaðsfólk í leit að starfi. Hann nýtist einnig þeim sem vilja miðla upplýsingum um störf sín og tengda starfsemi. Týr hefur til dæmis gaman af því að fylgjast með ævintýrum norskra ráðherra á LinkedIn.

Þar sá hann nýverið að Marianne Sivertsen Næss, sjávarútvegsráðherra Noregs, heimsótti sjávarútvegssýninguna í Barcelona, sem hefur staðið yfir í vikunni. Þar nýtti hún tímann til að funda með samstarfsþjóðum og kynna norskan sjávarútveg. Í færslunni kom fram að ráðherrann hefði boðið norskum þátttakendum á sérstakan samráðsfund um hvernig mætti gæta hagsmuna greinarinnar á viðsjárverðum tímum í alþjóðaviðskiptum.

Grafið undan verðmætasköpun

Týr telur þetta til eftirbreytni. Stjórnmálamenn og atvinnulífið ættu að taka höndum saman til að tryggja hagsmuni útflutningsgeiranna í harðnandi alþjóðasamkeppni. Ljóst er að íslenskir ráðamenn gætu margt lært af Norðmönnum í þessum efnum. Þar hafa stjórnmálamenn á borð við Marianne Sivertsen Næss raunverulegan áhuga útflutningsgreinum þjóðarinnar og skilja hvaða máli þær skipta. Þeir mæta á staðinn þegar það skiptir máli. Það gera ráðherrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttir ekki. Annað er upp á teningnum þegar boðað er til tilgangslausra rúnstykkjafunda í Brussel - þá hlaupa þeir til handa fóta beinustu leið upp í næstu flugvél Icelandair.

En ekki verður annað séð en að þetta sé ein af þeim norskum leiðum sem íslensk stjórnvöld eru síður en svo tilbúin til að feta.

Hvorki Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, né aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sáu ástæðu til að mæta á þessa mikilvægu sjávarútvegssýningu, sem haldin er árlega. Týr telur það reyndar ekki sérlega undarlegt, í ljósi þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar virðast fyrst og fremst hafa áhuga á að skattleggja verðmætasköpunina — og grafa þannig undan henni.

Innblástur frá Jóhönnustjórninni

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur virðist í þessum efnum sækja innblástur til vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Sú stjórn leit beinlínis á atvinnulífið sem óvin sinn. Slíkt hugarfar meðal stjórnmálamanna er dýrkeypt — og ekki til þess fallið að skapa landsmönnum bætt kjör og velsæld.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.