Haustið 2023 voru innleiddar breytingar í leikskólum í Kópavogi þar sem meðal annars var gert ráð fyrir sex tíma gjaldfrjálsum leikskóla, auknum sveigjanleika í skráningu dvalarstunda og tekjutengingu afslátta af leikskólagjöldum. Breytingar á leikskólaumhverfi Kópavogs áttu sér ekki stað í tómarúmi heldur var ráðist í breytingar til að bæta þessa mikilvægu þjónustu sem foreldrar treysta á.

Ástæðan fyrir þessum breytingum var grafalvarleg staða í leikskólakerfinu, deildir voru lokaðar heilu og hálfu dagana sökum manneklu og veikinda. Þá voru ekki allar deildir fullnýttar því ekki tókst að ráða inn starfsfólk og þess vegna færri börn sem fengu leikskólapláss. Það var því ábyrgðarhlutverk að horfast í augu við vandann og grípa til aðgerða. Þessi staða einskorðast vissulega ekki við Kópavog heldur er þetta staða sem sveitarfélög almennt voru og eru enn sum hver að glíma við.

Eðlilega skapa svona róttækar breytingar viðbrögð og Kópavogsmódelið er ekki hafið yfir alla gagnrýni en sú gagnrýni þarf hins vegar að vera á rökum reist.

Til dæmis fullyrti Kvenréttindafélag Íslands að Kópavogsmódelið væri birtingarmynd bakslags í jafnréttisbaráttunni síðastliðin ár. Mikilvægt er að hafa í huga að leikskólar eru grunnstoð jafnréttis en með tilkomu þeirra var mikill sigur unninn í jafnréttisbaráttunni og er klárlega meginskýring á því að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi sé sú hæsta í heimi. Með breytingum á leikskólaumhverfi í Kópavogi var því verið að standa vörð um þetta mikilvæga kerfi sem er lykilbreyta í jafnrétti kynja.

Ástæðulausar áhyggjur ASÍ

Í álykt­un ASÍ var fullyrt að Kópavogsmódelið komi niður á lág­launa­fólki, inn­flytj­end­um og ein­stæðum for­eldr­um. Tvær kannanir hafa verið gerðar frá því Kópavogsmódelið var innleitt en meðal helstu niðurstaðna eru að tekjulægsti hópurinn og innflytjendur eru einna ánægðastir í samanburði við aðra tekjuhópa og einna líklegastir til að nýta sér sex klukkustunda gjaldfrjálsa leikskólavist. Þá var sérstaklega reynt að ná til einstæðra foreldra með því hafa sérstaka tekjutengda afslætti sem einskorðast við þann hóp.

Vandinn var því ekki skortur á fjármagni líkt og haldið var fram heldur óviðunandi umhverfi fyrir starfsfólk og leikskólabörn og óstöðugleiki í þjónustu gagnvart foreldrum. Einn mesti stuðningur til barnafjölskyldna á Íslandi er niðurgreiðsla sveitarfélaga á leikskólagjöldum sem nema um 80 milljörðumn króna árlega en hvergi er stuðningur til leikskólastigins hærri meðal Evrópuríkja mælt sem hlutfall af landsframleiðslu.

Það er því ánægjulegt að nú þegar rétt um 16 mánuðir eru liðnir og reynsla er komin á breytingarnar má heyra að ofangreindar gagnrýnisraddir hafa svo gott sem horfið.

Kópavogsmódelið hefur bætt þjónustuna

Markmið með innleiðingu á Kópavogsmódelinu var að tryggja aukinn stöðugleika í leikskólastarfi, standa vörð um faglega þjónustu og tryggja mönnun í leikskólum Kópavogs. Nú þegar reynsla er komin á breytingarnar sýna mælingar að gæði skólastarfsins hefur aukist til muna, aldrei hefur þurft að loka leikskólum í Kópavogi sökum manneklu eða veikinda, leikskólar í Kópavogi eru svo gott sem fullmannaðir og fleiri börn fá því leikskólapláss. Stöðugleiki í þjónustunni hefur því klárlega batnað til muna líkt og lagt var upp með í upphafi.

Í því samhengi er vert að hafa í huga að staðan í Kópavogi var fyrir breytingar víða sú sama og hjá þeim sveitarfélögum sem ekki hafa gripið til aðgerða og þurfa reglulega að grípa til fáliðunaráætlana og lokana. Það er ljóst að sama staða væri uppi hjá okkur ef við hefðum ekki innleitt Kópavogsmódelið.

Nýverið var birt rannsókn sem gerð var af fræðimönnum við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri þar sem áhrif breytinga á starfsumhverfi leikskóla í Kópavogi og á Akureyri voru metin, en þar hafa verið innleiddar svipaðar breytingar. Í þeirra rannsókn kemur fram að gæði skólastarfs hafi batnað til muna við breytingar hjá báðum sveitarfélögunum. Starfsfólk telur að starfsaðstæður séu betri og skipulagning starfsins auðveldari. Þá sýnir rannsóknin jafnframt að yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks á leikskólum telur að börnunum líði betur eftir breytingarnar.

Mikilvægt er að rýna áfram stöðuna og gera breytingar ef til þess þarf. Staðreyndin er þó sú að Kópavogsmódelið hefur skilað árangri. Sem betur fer hlustuðum við sem gegnum forystu í Kópavogi ekki á úrtöluraddir Kvenréttindafélagsins og ASÍ heldur héldum okkar striki með hagsmuni barna, foreldra og starfsfólks í Kópavogi að leiðarljósi.

Höfundur er bæjarstjóri Kópavogs.