Sólveig Anna Jónsdóttir varð spurð af mbl.is á mánudag um viðbrögð sín við því að mennirnir tveir sem nú sæta gæsluvarðhaldi vegna meints undirbúnings á hryðjuverkum hefðu rætt sín á milli um að drepa hana. „Mér brá og fannst þetta mjög óþægilegt“ sagði Sólveig skiljanlega.
Svo heldur hún áfram. „Svo þegar ég fæ vitneskju um þetta, þá er það ónotalegt. Ég fór heim þennan dag og sagði fjölskyldunni minni frá þessu. Við sátum og borðuðum saman og reyndum að meðtaka þetta, við vorum að flissa, en horfðum hvert á annað og hugsuðum hvaða geðveiki þetta væri.“ Þetta eru fullkomlega eðlileg viðbrögð hjá Sólveigu Önnu enda hræðilegt þegar ógn steðjar að manni sjálfum og fjölskyldunni. Þetta er hrein og klár klikkun hjá mönnunum.
Við þessi tíðindi þá rifjast upp fyrir hröfnunum bloggfærsla sem þeir lásu fyrir ekki svo margt löngu, eða í apríl 2015. Hefur umrædd bloggfærsla nú skotið upp kollinum á samfélagsmiðlum. „Númeraði listinn gerir manni auðveldara að færa fólk og atburði upp og niður eftir honum. Mig minnir að ég hafi verið fremur stálpaður krakki, þvísemnæst unglingur, hér forðast ég auðvitað að tölusetja nákvæmlega aldur minn, þegar ég útbjó mér fyrst svona lista. Hann hét: Hverja myndi ég drepa. Á listanum voru aldrei fleiri en fimm, hér neyðist ég til að nota tölu, verkefnið þurfti að vera viðráðanlegt; sérvalin illmenni sem þvældust um veröldina og ollu uppnámi og hörmungum. Páfinn var ávallt á listanum, oftar en ekki í fyrsta sæti, aðrir færðust upp og niður, innaf og útaf. Hinn ameríski Gísli Freyr, Oliver North, er gott dæmi um mann sem heimsótti listann en staldraði stutt við. Ef maður hugar að hinu sögulega samhengi væri kannski tilvalið að endurnefna listann Listi hins blóðþyrsta og viljuga barns."
Þetta blogg kallaðist prólí móló – orðið í Lödunni og færslan Zero tolerance motherfokkers. Höfundurinn er Sólveig Anna Jónsdóttir og því miður er ekki hægt að tala um að færslan hafi verið eitthvað bernskubrek því hún var fertug þegar hún skrifaði hana.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 13. október.