Fyrirkomulag alþjóðaviðskipta eins og við þekkjum það er að leysast upp. Frjáls viðskipti, viðskiptabandalög og traust eru á undanhaldi og í sumum tilvikum heyra sögunni til. Nýjasta útspil Donald Trump í tollamálum var kynnt í síðustu viku og felur í sér viðskiptatolla á nánast öll lönd heimsins.
Þessi aðgerð er líklega ein stærsta aðgerð gegn frjálsum viðskiptum sem nokkurt land hefur stigið í sögunni. Eðlilegt er að margir horfi á atburðarás síðustu daga með undrun og velti fyrir sér hver raunveruleg langtímastefna Bandaríkjanna sé. Til að skilja hvaðan Trump kemur í þessu samhengi, er mikilvægt að skoða fyrirkomulag alþjóðaviðskipta síðustu áratuga.
Blómaskeið alþjóðavæðingar
Það er oft erfitt að átta sig á stórum breytingum í heiminum nema að horfa á þær í baksýnisspeglinum og setja í samhengi sögunnar. Ég tel að frá COVID-árunum hafi heimurinn byrjað að beygja af leið fyrri tíma og að tímabil alþjóðavæðingar eins og við þekktum það sé að líða undir lok.
Frá byrjun níunda áratugarins hefur efnahagsumhverfi heimsins verið afar farsælt. Vextir og verðbólga fóru sífellt lækkandi í kjölfar þess að Paul Volcker, þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, setti stýrivexti í 20% árið 1981. Það markaði upphaf langvarandi tímabils lækkandi verðbólgu og vaxta. Í kjölfarið jókst alþjóðavæðing fyrirtækja stórlega þar sem Kína reis hratt úr fátækt og varð efnahagslegt framleiðslustórveldi. Vestræn fyrirtæki gátu framleitt vörur ódýrara og með skilvirkari hætti en áður hafði þekkst með því að nýta ódýrustu aðföng og vinnuafl.
Framleiðslukostnaður lækkaði því verulega, sem skilaði sér í miklum hagvexti og aukinni velmegun um allan heim. Kalda stríðinu lauk með falli Sovétríkjanna og við tók friðartími þar sem frjáls viðskipti þvert yfir heiminn voru sett í forgrunn. Internetið kom til sögunnar og færði allan heiminn að dyrum fyrirtækja, sem gátu nú selt vörur hvert sem er í heiminum með minni tilkostnaði en áður. Allt fól þetta í sér gríðarlega velsæld um heim allan.

Heimurinn breyttist í COVID
Þegar COVID-faraldurinn skall á árið 2020 var vaxtastig í vestrænum ríkjum nánast sett í 0%, og seðlabankar gripu inn í fjármálamarkaði með stórtækum hætti, eftir sömu uppskrift og í fjármálakreppunni árið 2008.
Seðlabanki Bandaríkjanna hafði þá þegar stækkað efnahagsreikning sinn úr um 1.000 í 9.000 milljarða dollara með prentun nýrra dollara. Þess ber að geta að þegar þetta er ritað er talið að skuldir ríkja og fyrirtækja í heiminum nemi um 350.000 milljörðum dollara, eða sem nemur 350% af vergri landsframleiðslu heimsins.
Til samanburðar voru heildarskuldir heimsins árið 1980 um 11.000 milljarðar dollara eða tæplega 100% af VLF.
Þrátt fyrir að heimurinn hafi aukið efnahagslega hagsæld sína verulega á blómaskeiði alþjóðavæðingar, hafa þjóðir heimsins safnað upp skuldum sem varla eiga sér hliðstæðu nema eftir seinni heimstyrjöldina. Sé litið á langtímavexti í Bandaríkjunum (sjá mynd) má sjá að tímabil lækkandi vaxta er að baki og vextir hafa byrjað að hækka verulega. Þetta kemur illa við margar af skuldugum þjóðum heimsins og eru vaxtagjöld Bandaríkjanna eru nú orðin hærri en útgjöld til varnarmála.
Til viðbótar riðluðust aðfangakeðjur verulega í COVID faraldrinum, sem leiddi til þess að lönd fóru að endurmeta hvernig þau verða sér úti um mikilvægar vörur og aðföng. Vöruskortur birtist víða og lönd áttuðu sig á því að samtengdur heimur er mun viðkvæmari fyrir áföllum en áður var talið.
Innrás í Úkraínu og aukin geopólitísk spenna
Innrás Rússa í Úkraínu árið 2022 markaði tímamót í viðskiptasambandi stærstu stórvelda heims. Vesturlönd brugðust við með því að frysta gjaldeyrisvaraforða Rússa, og skilaboðin til heimsins voru skýr: lönd sem fara gegn vilja Bandaríkjanna kunna að missa aðgang að gjaldeyriseignum sínum í dollar og evrum.
Bandaríkjadalur er meginstoð í gjaldeyrisvaraforða þjóðríkja heimsins og því var þetta sögulegt skref. Kína virðist hafa brugðist snarlega við þessari aðgerð, dró enn úr kaupum á bandarískum ríkisskuldabréfum og hóf umfangsmikil kaup á gulli þess í stað. BRICS-löndin (Kína, Indland, Rússland, Brasilía o.fl.) fóru að ræða viðskipti í öðrum gjaldmiðlum, t.d. júan, rúblu eða jafnvel rafmyntum, og fleiri ríki óskuðu eftir aðild að samstarfinu.
Þetta hefur grafið undan trausti á dollaranum sem alþjóðlegri varaforðamynt. Spennan milli stórvelda heimsins hafði aukist verulega og án þess að taka upp hanskann fyrir Rússland má segja að upptaka á gjaldeyrisforða annarra stórvelda hefur ekki sést áður og mun hafa varanleg áhrif á samskipti þeirra.
Donald Trump og viðsnúningur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna
Í nóvember 2024 var Donald Trump kjörinn 47. forseti Bandaríkjanna. Í kosningabaráttunni lagði hann áherslu á þjóðaröryggi, efnahagslegt sjálfstæði og strangari innflytjendastefnu. Fáir gátu þó séð fyrir þann glundroða sem hefur fylgt einhliða tollastefnu hans, sem er líklega sú róttækasta í sögu alþjóðaviðskipta. Hvort um sé að ræða samningatækni eða upphaf að langvarandi tollastríði skal ósagt látið.
En ljóst er að Bandaríkin hafa tekið nýja stefnu sem virðist ætla að bregðast við alvarlegum innri áskorunum: hallarekstri ríkissjóðs, miklum vöruskiptahalla og sívaxandi skuldasöfnun. Ég fjallaði um þetta ósjálfbæra ástand Bandaríkjanna í grein á vb.is í nóvember 2023 sem nefndist „Skuldakrísa Bandaríkjanna – hnignandi heimsveldi“.
Ný ríkisstjórn Trumps er sú fyrsta sem opinberlega viðurkennir ósjálfbærni ríkisfjármála og utanríkisviðskipta. Stefnt er að 1.000 milljarða dollara hagræðingu og forsetinn virðist tilbúinn að heyja viðskiptastríð til að minnka vöruskiptahalla.
Ný heimsmynd
Á örfáum árum hafa grundvallarforsendur alþjóðahagkerfisins breyst. Alþjóðavæðing er á undanhaldi og þjóðríki setja eigin hagsmuni í forgang. Í slíku umhverfi má segja að kaka heimshagkerfisins sé ekki að stækka og lönd eru að gera tilkall til stærri hluta hennar. Bandaríkin hafa tekið forystu í þessum breytingum.
Landið hefur stillt viðskiptalöndum upp við vegg með tollum, gert kröfu um að önnur ríki greiði fyrir varnarsamstarf á borð við NATO, aflétt viðskiptabanni á Venesúela til að kaupa af þeim olíu og leitast við að komast yfir heilu löndin eins og Grænland og Kanada, svo dæmi séu tekin.
Þessi þróun er til marks um vaxandi örvæntingu og minnkandi traust í alþjóðakerfinu, sérstaklega gagnvart Bandaríkjunum. Hér drögum við saman mörg af þeim atriðum sem eru að taka hvað mestum breytingum og þessi samanburður sýnir með skýrum hætti þær fjölmörgu breytingar sem hafa átt sér stað á nokkrum árum.

Heimurinn er að breytast, og ný lögmál eru tekin við þar sem traust, frjáls viðskipti og stöðugleiki eru ekki lengur sjálfgefin gildi. Þjóðríki víðsvegar um heiminn eru að vakna til vitundar um að þau verða að verja eigin hagsmuni með meiri festu en áður.
Ísland stendur ekki utan við þessar umbreytingar. Sem lítið og opið hagkerfi í vestrænu öryggis- og viðskiptakerfi erum við háð umheiminum um flesta hluti, á meðan styrkur okkar liggur í auðlindum landsins á sviði orkuframleiðslu, sterkra útflutningsgreina, hugvits og landfræðilegrar stöðu. Við erum hins vegar ófær um að verja okkur sjálf og varnarmál landsins þurfa því að vera forgangsmál yfirvalda. Þá þarf Ísland að skilja í þaula hvar tækifærin og ógnanir liggja í breyttri heimsmynd og undirbúa sig fyrir að heimsmyndin muni áfram breytast hratt.
Guðlaugur er fjárfestingastjóri og meðstofnandi Visku Digital Assets ehf.