Nú er að verða hálfnaður gildistími kjarasamninga SA og Starfsgreinasambandsins (SGS) og fleiri verkalýðsfélaga sem gerðir voru í byrjun desember síðastliðins. Það var ánægjulegt að samningarnir tóku beint við af Lífskjarasamningnum sem gerður var 2019. Núgildandi samningar renna út í lok janúar 2024 og hafa samningsaðilar þegar hafið undirbúning nýs samnings.

Vonast er til að sá samningur gæti orðið til lengri tíma en sá síðasti og þá miðað við að dregið hafi úr óvissu í efnahagsmálum, verðbólguhorfur hafi batnað og grunnur skapast til að vextir geti lækkað að nýju.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að verðbólga muni reynast þrálátari en vonast var til, að vextir verði áfram háir og að lengri tími muni líða áður en þeir taka að lækka að nýju. Þar veldur meðal annars tregða ríkisins til að draga úr útgjöldum. Hækkanir verðlags og vaxta þrengja að hag fólks og fyrirtækja. Fjárfestingar verða minni en ella og það dregur úr neyslu. Erfitt er að sjá hvernig fyrirtæki geti tekið á móti auknum launakostnaði án þess að það hafi áhrif á verðlag.

Allir sýni ábyrgð

Til þess að unnt verði að gera skynsamlega kjarasamninga í byrjun næsta árs verða allir að sýna ábyrgð. Atvinnurekendur geta ekki leyft sér að skrifa undir óraunhæfa kjarasamninga sem einungis ýta undir verðbólgu. Stéttarfélögin þurfa að gera sér grein fyrir því að of háar launakröfur verða fljótt innihaldsrýrar. Ríkið og sveitarfélögin verða að sýna meira aðhald en kemur fram í nýjum samþykktum fjárlögum og fjármálaáætlunum.

Í kjölfar samninganna sem náðust í desember urðu hins vegar erfið átök við félög sem töldu sig eiga rétt á meiri launahækkunum en þau sem fyrst höfðu samið. Án þess að rekja það nákvæmlega kom í ljós verulegur annmarki á heimildum ríkissáttasemjara til að grípa inn í og tryggja að miðlunartillaga gæti komið til atkvæða. Vonast var til að úr þessu yrði bætt með lagabreytingum á yfirstandandi þingi en í ljós hefur komið að svo verður ekki og er það miður. Reyndar er ákvæði um þetta að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir:

„Stuðlað verður að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Styrkja þarf hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.“

Endurskoða þarf vinnulöggjöf

Hér er um að ræða lágmarksbreytingar en á Norðurlöndum hafa sambærileg embætti enn ríkari heimildir m.a. til að fresta verkfalls- eða verkbannsaðgerðum, tengja saman viðræður ólíkra hópa og tryggja að almennri markaðri launastefnu sé fylgt án þess að einstakir aðilar geti brotið niður sameiginlega stefnu þeirra sem fyrst semja. Þessar heimildir sáttasemjara eru hvorki settar til höfuðs verkalýðsfélögum né samtökum atvinnurekenda heldur til að tryggja hag almennings með því að draga úr líkum á hörðum átökum á vinnumarkaði. Þetta er hluti af skýringum þess að efnahagslegur stöðugleiki annars staðar á Norðurlöndum er meiri en hér.

Það er nauðsynlegt að vinnulöggjöfin verði endurskoðuð og kjarasamningum markaður sambærilegur rammi og reynst hefur vel í nágrannalöndunum. Það er hluti af endurbótum sem ráðast þarf í til að tryggja hag fyrirtækja og launafólks í landinu.

Höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.