Sýndareignir hafa til þessa verið háðar töluverðri lagalegri óvissu og hefur skortur á heildstæðu regluverki um markaðssvik og fjárfestavernd gert það að verkum að mörkuðum sýndareigna er oft líkt við villta vestrið.

Sýndareignir hafa til þessa verið háðar töluverðri lagalegri óvissu og hefur skortur á heildstæðu regluverki um markaðssvik og fjárfestavernd gert það að verkum að mörkuðum sýndareigna er oft líkt við villta vestrið.

Samhliða auknum vexti á mörkuðum sýndareigna síðustu ár hefur Evrópusambandið fundið sig knúið til að innleiða heildstætt reglusetningar- og eftirlitsfyrirkomulag, sem ætlað er að vinna bug á ósamræmdum innlendum lagarömmum, sem hafa leitt til sundrungar á þessum mörkuðum. Þetta fyrirkomulag var samþykkt í formi reglugerðar, þann 20. apríl 2023, og ber hún heitið „Reglugerð um markaði fyrir sýndareignir“ (e. Regulation on Markets in Crypto-Assets), oftast skammstafað „MiCA“.

Aukinn áhugi íslenskra yfirvalda

Hér á landi má víða sjá merki um aukinn áhuga löggjafans á sýndareignum og dreifðri færsluskrártækni (e. distributed ledger technology). Þann 22. maí 2023 birti starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins skýrslu um tækifæri og áhættur á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu.

Var niðurstaða starfshópsins sú að tækni sem byggist á dreifðri færsluskrá, þ.m.t. bálkakeðjum, gæti leitt til umtalsverðra framfara á sviði fjármálaþjónustu en að án viðeigandi regluverks væri þó hætt við að áhættur sem fylgja nýrri tækni gætu leitt til óstöðugleika og misnotkunar, sem yfirgnæfði ávinninginn. Því taldi starfshópurinn mikilvægt að hið nýja evrópska regluverk, þ.m.t. MiCA-reglugerðin, yrði innleitt eins hratt og mögulegt væri.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur þegar hafið vinnu við innleiðingu á hinu nýja evrópska regluverki, en þann 1. janúar síðastliðinn birti fjármálaráðuneytið drög að frumvarpi til laga um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni. Má því telja líklegt að innleiðing áðurnefndrar MiCA-reglugerðar í íslensk lög sé skammt undan.

Sýndareignir og fjármálagerningar

MiCA-reglugerðin er um margt svipuð betur þekktu regluverki Evrópusambandsins, svokallaðri tilskipun um markaði fyrir fjármálagerninga (e. Markets in Financial Instruments Directive - MiFID II) og við lestur MiCA-reglugerðarinnar má leiða að því líkur að MiFID II hafi verið fyrirmyndin að MiCA.

Í þessu tilliti má horfa til þeirra krafna sem MiCA-reglugerðin gerir til þeirra aðila sem veita svokallaða sýndareignaþjónustu, en þær svipa mikið til þeirra krafna sem gerðar eru til þjónustuveitenda fjárfestingarþjónustu í MiFID II tilskipuninni. Markmið regluverkanna tveggja eru einnig áþekk og má þar helst nefna markmið um að tryggja gagnsæi, efla fjárfestavernd og auka traust fjárfesta á mörkuðum.

Með vísan til sambærileika regluverkanna verður áhugavert að fylgjast með því hvort þar til bærir aðilar, þ.e. yfirvöld og dómstólar, muni koma til með að túlka þær til samræmis. Við slíka túlkun þarf þó að hafa í huga eðlismun sýndareigna og hefðbundinna fjármálagerninga.

Áhugavert verður því að fylgjast með hvernig yfirvöld og dómstólar koma til með að túlka ákvæði MiCA-reglugerðarinnar.

Í þessu tilliti má benda á að sýndareignir eru víðtækur eignaflokkur sem nær til margra tegunda eigna. Sumar tegundir sýndareigna líkjast mjög þeim eignum sem við þekkjum úr daglegu lífi, svo sem gjafakort, meðan aðrar tegundir eru nýjar af nálinni. Hér má taka sem dæmi hinar margrómuðu rafmyntir, en tilgangur og eðli þeirra svipar í raun frekar til hefðbundinna gjaldmiðla frekar en fjármálagerninga.

Þetta frábrugðna eðli sýndareigna leiðir til þess að jafnvel þótt regluverkin tvö séu að miklu leyti svipuð, verður að fara varlega í að túlka ákvæði MiCA í samræmi við MiFID II, sérstaklega hvað ákveðnar tegundir sýndareigna og sýndareignaþjónustu varðar. Áhugavert verður því að fylgjast með hvernig yfirvöld og dómstólar koma til með að túlka ákvæði MiCA-reglugerðarinnar.